Nærur, naríur og nærjur

Ég ólst upp við að nota orðið brók um nærbuxur – ég man ekki hvort ég þekkti einu sinni orðið nærbuxur en hafi svo verið hefur mér örugglega þótt það pempíulegt. Einhvern tíma á unglingsárum lærði ég svo að brók þætti frekar ófínt orð og nærbuxur væri orðið sem siðað fólk notaði. Ég hef svo sem aldrei komist að því hvort notkun orðanna eða viðhorf til þeirra breyttist á einhverjum vissum tíma, eða hvort notkunin er eitthvað landshlutabundin. Dæmum um nærbuxur á tímarit.is hefur reyndar fjölgað mun meira á undanförnum áratugum en dæmum um brók en þetta eru vitanlega orð sem örugglega eru margfalt meira notuð í talmáli en í formlegu ritmáli þannig að þetta er ekki alveg að marka.

En um miðjan níunda áratug síðustu aldar fara að sjást á prenti tvö ný orð um þennan fatnað – fleirtöluorðin nærur og naríur. Hvorugt orðið er í Íslenskri nútímamálsorðabók en það fyrrnefnda er í Íslenskri orðabók. Elstu dæmin um orðin eru nokkurn veginn jafngömul. Það fyrrnefnda sést fyrst í Stúdentablaðinu 1984: „sá tími kemur að við förum að laumast út í garð á stuttbuxum eða bara á nærunum.“ Síðarnefnda orðið sést fyrst í Eyjafréttum 1985: „halir voru heldur nöturlega klæddir, eða eingöngu á naríunum.“ Slæðingur af dæmum um bæði orðin kemur svo fyrir á næstu árum þar á eftir, það síðarnefnda stundum innan gæsalappa sem sýnir að það hefur þótt eitthvað framandi.

Í Degi 1997 segir: „Tungumál barnanna er stöðugt í mótun, þannig er áhersluorðið „ýkt“ í daglegri notkun, stuttermabolur heitir nú „stuttbolur“ og nærbuxur heita „naríur“.“ Þetta sýnir að orðið naríur hefur þarna verið að breiðast út. Í Risamálheildinni er á þriðja þúsund dæma um orðið, langflest úr óformlegu málsniði samfélagsmiðla eins og við er að búast. Dæmin um nærur eru mun færri en þó rúmlega þúsund, einnig flest af samfélagsmiðlum. Orðið nærur er væntanlega stytting úr nærbuxur – ágætt orð og fellur vel að málinu. Orðið naríur hlýtur að vera skylt og hafa orðið til við einhvers konar hljóðavíxl sem ég botna ekki í. En hvað sem um upprunann má segja er ljóst að orðið hefur unnið sér hefð í málinu.

Enn ein mynd, sem ég þekkti ekki fyrr en ég fór að skrifa um þetta, er nærjur. Sú mynd er ekki heldur í orðabókum og virðist nokkuð yngri en hinar – elsta dæmið sem ég finn um hana er í Degi-Tímanum 1997: „Þar sem við stormum ábúðarfull með geysimikilvægt erindi í bankann að borga gíróseðilinn frá stöðumælaverðinum, eða kaupa nærjur í Kjörgarði.“ Um þessa mynd eru aðeins fimm dæmi á tímarit.is, en í Risamálheildinni eru dæmin um 170, öll nema tvö af samfélagsmiðlum þar sem hún virðist hafa verið orðin algeng upp úr aldamótum. Væntanlega er þessi mynd orðin til úr naríura-ið tvíhljóðast og verður æ, e.t.v. fyrir áhrif frá nærur og nærbuxur, og í-ið verður j eins og eðlilegt er á undan sérhljóði. Þetta er skemmtileg fjölbreytni.