Að koma úr gagnstæðri átt

Í Málvöndunarþættinum sá ég vísað í frétt um bíla sem lentu í árekstri og „komu úr gagnstæðri átt“. Málshefjandi sagðist „freistast til að halda að þeir hafi komið sinn úr hvorri áttinni“. Um þetta hefur nokkrum sinnum áður verið fjallað í Málvöndunarþættinum, m.a. í innleggi sem ég skrifað þar sjálfur fyrir fjórum árum og sagði þá: „Í fréttum af umferðarslysum er mjög oft talað um „gagnstæða átt“, t.d. „bílarnir komu úr gagnstæðum áttum“, „rakst á bíl sem kom úr gagnstæðri átt“ o.s.frv. Mér sýnist á tímarit.is að tíðni þessa sambands hafi aukist verulega á síðustu áratugum. Það er auðvitað ekkert að þessu en vel mætti þó hafa meiri fjölbreytni í orðalagi, segja t.d. „bílarnir komu hvor á móti öðrum“, „rakst á bíl sem kom á móti“ o.s.frv.“

Orðalagið úr gagnstæðri átt er gamalt í árekstralýsingum. Í Heimskringlu 1893 segir: „En þá vildi svo til að inn rauðhærði Merkúríus Mr. Pleggits kom með jafn-hraðri ferð og í álíka vígamóði fyrir sama húshorn úr gagnstæðri átt, og sá hvorugr annan fyrri en þeir runnu hvor í fang öðrum á strætishorninu.“ Í Ísafold 1893 segir: „Eitt sinn kom Smith á flugferð fyrir götuhorn, en í sömu svipan bar hinn unga mann þar að viðlíka hratt úr gagnstæðri átt. Skullu þeir hvor á annan og fjellu af baki.“ Í Reykjavík 1910 segir: „Hraðlest, sem var á leið frá Berlín til Vínarborgar rakst með fullri ferð á flutningslest, sem kom úr gagnstæðri átt.“ Í Vísi 1912 segir: „Bifreið hans rakst á tvær aðrar bifreiðar er komu úr gagnstæðri átt.“

Þarna er alltaf byrjað að nefna annan aðilann en hinn kemur svo úr gagnstæðri átt við hann. Það er ekki fyrr en mun síðar að farið er að nefna báða aðila í sömu andrá og þeir sagðir koma úr gagnstæðum áttum – í fleirtölu. Í Alþýðublaðinu 1960 segir: „Ökumenn og hestamenn þurfa á mun meiri viðbragðsflýti að halda, ef hestar og bifreiðar koma úr gagnstæðum áttum á sama vegarhelmingi.“ Í Vísi 1965 segir: „Annar bíllinn var vörubifreið en hinn sendiferðabifreið og komu þeir úr gagnstæðum áttum.“ Í Vísi 1970 segir: „Tveir bílar, sem komu úr gagnstæðum áttum, rákust þar á á töluverðum hraða.“ Í Morgunblaðinu 1971 segir: „Bílarnir komu úr gagnstæðum áttum, en sá er var á norðurleið ætlaði hins vegar að beygja vestur Álfheima.“

En fljótlega var einnig farið að nota eintöluna, úr gagnstæðri átt, í dæmum af þessu tagi. Í Alþýðublaðinu 1971 segir: „Tildrög voru þau, að um klukkan hálf eitt í nótt komu tveir bílar úr gagnstæðri átt eftir Hringbraut og mættust þeir á móts við hús nr. 81.“ Í sama blaði sama ár segir: „Þar komu tveir jeppar úr gagnstæðri átt, en í stað þess að mætast eðlilega, óku þeir beint saman og var höggið mikið.“ Í Alþýðublaðinu 1973 segir: „Þeir komu úr gagnstæðri átt og mættust á miðri leið.“ Í Vísi 1976 segir: „Komu bílarnir úr gagnstæðri átt og lentu saman á blindhæð.“ Í Morgunblaðinu 1977 segir: „Engin boð- eða bannmerki eru þarna, sem gefa ökumönnum er koma úr gagnstæðri átt til kynna hvor skuli víkja fyrir hinum.“

Bæði eintala og fleirtala hafa því tíðkast í setningum af þessu tagi í meira en hálfa öld, en eintalan virðist þó talsvert algengari. Sumum finnst þó órökrétt að nota eintölu þar sem áttirnar eru ómótmælanlega tvær og því hljóti að vera eðlilegra að segja komu úr gagnstæðum áttum. En hvor bíll (eða hvað svo sem það er sem lendir í árekstri) kemur þó aðeins úr einni átt – hinn kemur úr gagnstæðri átt. Þegar sagt er bílarnir komu úr gagnstæðri átt merkir það 'gagnstæðri átt hvor við annan' en óþarft er að segja hvor við annan því að það segir sig sjálft. Það er komin löng hefð á bæði eintölu og fleirtölu í slíkum setningum og engin hætta á misskilningi. Það breytir því ekki að ekkert væri á móti því að nota stundum annað orðalag til tilbreytingar.