Meiri líkur en minni
Orðasambandið meiri líkur en minni er mikið notað um þessar mundir. Það er ekki gamalt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Einherja 1984 þar sem segir: „Ef þessi breyting á skipinu hefði ekki verið gerð […] eru meiri líkur en minni á því að Siglfirðingur SI 150 hefði lent á uppboði.“ Annað dæmi er í DV 1991: „Hann telur fundinn hafa verið jákvæðan og eftir hann séu meiri líkur en minni að það verði reist nýtt álver á Íslandi.“ Á seinni hluta tíunda áratugarins verður þetta orðalag svo algengt og einkum eftir aldamót. Tæp 700 dæmi eru um það á tímarit.is og rúm 1700 í Risamálheildinni. Öfug röð, þ.e. minni líkur en meiri, kemur líka fyrir en er margfalt sjaldgæfari – 63 dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1994, og 152 í Risamálheildinni.
Þótt líkur sé langalgengasta orðið í þessu sambandi koma önnur nafnorð einnig fyrir, svo sem upplýsingar, hagsmunir, líkindi, tími, viðbúnaður o.fl. Í sjálfu sér er þetta orðasamband dálítið sérkennilegt – meiri líkur en hvað? Meiri líkur en minni líkur? Og þá minni líkur en hvað? Í samanburði af þessu tagi er venjulega eitthvert ytra viðmið – meiri líkur en í fyrra, meira en helmings líkur, meiri líkur en áður var talið, o.s.frv. En þarna er sambandið eiginlega borið saman við sjálft sig ef svo má segja. Það má vel halda því fram að þarna skorti einhvern röklegan grundvöll og „rökréttara“ væri að segja t.d. meira en helmings líkur. En meiri líkur en minni hefur unnið sér hefð, fólk er farið að þekkja það og það misskilst varla. Ekkert að því.