Tómstund

Nýlega var spurt hér út í notkun orðsins tómstund í eintölu í merkingunni 'áhugamál'. Ég hafði rekist á þessa notkun orðsins í háskólaritgerð og fór því að kanna málið. Orðið tómstund er gamalt í málinu, kemur fyrst fyrir á 16. öld, og merkir bókstaflega 'tóm stund' – Íslensk orðabók skilgreinir það sem 'frístund, stund eða tími þegar ekki þarf að gegna skyldustörfum'. Íslensk-dönsk orðabók frá 1920-1924 skýrir eintöluna 'Fritime, Fritid' en fleirtöluna 'ledige timer'. Í eldri dæmum er orðið oftast í eintölu en í seinni tíð er það langoftast í fleirtölunni tómstundir, eins og kemur fram í því að í Íslenskri nútímamálsorðabók er eintalan gefin án skýringar og vísað á fleirtöluna sem er skýrð 'tíminn þegar ekki þarf að gera skylduverk, frístundir'.

Í orðasafni í tómstundafræði í Íðorðabankanum er hugtakið tómstundir aftur á móti skilgreint svo: „Meðvituð athöfn í frítíma sem byggir á frjálsu vali einstaklingsins, skapar tækifæri til reynslu og hefur jákvæð áhrif á velferð og lífsgæði.“ Þessu fylgir ítarleg skýring þar sem segir m.a.: „Tómstundir eiga sér yfirleitt stað í frítíma en ekki er allt sem gert er í frítíma tómstundir.“ Þarna er sem sé búið að taka orð sem vísar til tíma og það látið vísa til athafna í staðinn. Þetta má væntanlega rekja til þess að tómstund er notað sem þýðing á enska orðinu leisure sem einmitt getur vísað bæði til tíma og athafna – 'the time when you are not working or doing other duties' og 'activities people do when they are not working, to relax and enjoy themselves'.

Orðið tómstundastarf hefur lengi verið notað um 'viðfangsefni unnið í frístundum' – elsta dæmi um það orð er frá 1919. Tæp átta þúsund dæmi eru um orðið á tímarit.is og um fimm þúsund í Risamálheildinni. Orðið tómstundagaman var einnig mjög algengt – um það eru tæp fjögur þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1924. Það er þó minna notað í seinni tíð – dæmin í Risamálheildinni eru aðeins tæp 900. Orðið tómstundastarfsemi hefur einnig verið notað en er miklu sjaldgæfara. Við þetta má svo bæta orðinu áhugamál sem Íslensk nútímamálsorðabók skýrir 'eitthvað sem einhver gerir sér til ánægju (í frístundum sínum), tómstundagaman, hobbí' – merking þess er þó víðari og það er einnig skýrt 'málefni sem einhverjum er hugleikið'.

En nú er sem sé farið að nota orðið tómstund, í eintölu og fleirtölu, í þessari merkingu. Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Ég held að samkvæmisdans sé eina íþróttin og tómstundin þar sem karlmenn eiga að stjórna.“ Í DV 2011 segir: „Hver er uppáhalds tómstundin eða afþreying?“ Í Víkurfréttum 2016 segir: „Sjóðurinn aðstoðar fjölskyldur sem eru undir viðmiðunarmörkunum einnig við að greiða fyrir eina tómstund fyrir hvert barn og skólamat.“ Í Morgunblaðinu 2021 segir: „Svo þarf líka að hlúa að þeim sem eru í hestamennsku sem tómstund og eru ekki að keppa.“ Í Fjarðarfréttum 2021 segir: „Foreldrar þurfa því að leggja út fyrir íþróttinni eða tómstundinni.“ Hér væri í öllum tilvikum hægt að nota ýmist tómstundastarf eða áhugamál.

Vitanlega er mjög algengt að merking orða breytist smátt og smátt í málsamfélaginu – það er fullkomlega eðlilegt. Meðvituð merkingarbreyting þar sem orð eru tekin og gefin ný merking eða eldri merkingu hliðrað aðeins til – og málfræðilegri hegðun stundum líka – er ekki heldur neitt einsdæmi. Alþekkt dæmi eru sími og skjár, og nýlegt dæmi er bur. En þar vantaði í öllum tilvikum íslensk orð, og endurnýttu orðin voru að mestu eða öllu leyti horfin úr notkun í upphaflegri merkingu. Aftur á móti er orðið tómstundir sprelllifandi í þeirri merkingu sem það hefur alltaf haft. Þess vegna er í meira lagi hæpið að taka það og breyta merkingu þess, ekki síst þar sem fyrir voru í málinu orð sem hafa þá merkingu sem tómstundum var gefin.