Niðurstaðan byggir á þessu
Í Málfarsbankanum segir: „Rétt er að gera greinarmun á notkun sagnarinnar byggja og miðmynd hennar byggjast. Dæmi: Þetta mat er byggt á sjálfstæðri rannsókn. Hann byggir þetta mat á sjálfstæðri rannsókn. Þetta mat byggist á sjálfstæðri rannsókn. Síður: „þetta mat byggir á sjálfstæðri rannsókn“.“ Í Íslenskri orðabók er „e-ð byggir á e-u“ merkt „!?“ sem þýðir að það teljist ekki gott mál og vísað á „e-ð byggist á e-u“. Gísli Jónsson sagði í Morgunblaðinu 1998: „Samningarnir byggjast á gagnkvæmu trausti. Þeir byggja ekki neitt, af því að þeir kunna það ekki.“ Hann nefnir hliðstætt dæmi: „Enginn segir: Samningurinn „grundvallar“ á gagnkvæmu trausti, heldur grundvallast. […] Miðmynd er þarna höfð í þolmyndarmerkingu.“
Þetta er út af fyrir sig rétt, svo langt sem það nær. En þarna er ekki tekið tillit til gamallar og ríkrar málvenju. Það hefur nefnilega verið algengt a.m.k. síðan fyrir miðja 19. öld, og er enn, að nota sambandið byggja á á þann hátt sem þarna er varað við. Í Nýjum félagsritum 1841 segir: „Útskíríngu gamla testamentisins nema menn þá ekki, en hún er þó öldúngis ómissandi til þess að geta rétt skilið hið nýa, sem opt byggir á hinu gamla.“ Í Tíðindum frá þjóðfundi Íslendinga 1851 segir: „Það er og eitt athugavert við þetta frumvarp, að það byggir á ókomnum lögum, eða á öðrum lögum en þeim, sem þar standa.“ Í Þjóðólfi 1869 segir: „Það var einkennilegt við þetta frumvarp, að það byggir á því, að Ísland hafi verið innlimað í Danmörk 1662.“
Hliðstæð dæmi frá 19. öld, þar sem byggja á tekur ekki með sér geranda, eru fjölmörg, og þessi notkun sambandsins hefur verið mjög algeng alla tíð síðan. Af Risamálheildinni má ráða að hún sé algengari í nútímamáli en byggjast á, en það er ljóst að samböndin eru oft notuð jöfnum höndum í sömu merkingu, jafnvel innan sömu málsgreinar. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Þær skiptast aftur í tvennt: þær sem byggja á að kaupa til að selja aftur og hinar sem byggjast á því að kaupa til að eiga.“ Í DV 2016 segir: „Aðstoð við flóttamenn á ekki að byggja á því hverrar trúar þeir eru heldur á að byggjast á mannúð.“ Í Kjarnanum 2017 segir: „Ekki stöðugleika sem byggir á því að festa ranglæti í sess heldur stöðugleika sem byggist á samfélagslegri sátt.“
Það má vissulega halda því fram að þessi notkun byggja á sé „órökrétt“ vegna þess að byggja krefjist geranda eins og fram kemur í orðum Gísla Jónssonar hér að framan. En eins og ég hef iðulega skrifað um er ekki hægt að hafna rótgróinni málvenju á þeirri forsendu að hún sé „órökrétt“ – þá fengi ansi margt að fjúka. Og reyndar þarf ekki heldur að líta svo á að eitthvað sé „órökrétt“ við þessa notkun. Það má nefnilega ekki einblína á sögnina byggja – samband sagnar og forsetningar/atviksorðs fær oft sérstaka merkingu sem víkur frá grunnmerkingu sagnarinnar og það má segja að sambandið byggja á hafi fengið merkinguna 'hvíla á'. Á hana er komin löng og rík hefð og hún er augljóslega rétt mál sem engin ástæða er til að amast við.