Að deita og deit
Hvorugkynsnafnorðið deit og sögnin deita eru mjög algeng tökuorð í nútímamáli, komin af nafnorðinu date og samhljóma sögn í ensku. Hvorugt orðanna er í Íslenskri orðabók en sögnin er í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrð 'fara á stefnumót við e-n' og sögð „óformleg“. Elsta dæmi sem ég finn um nafnorðið er í Vísi 1979: „Síðan fékk „deitið“ hans, sem heitir Virginia Christian, vænan skammt af kossum og þvílíku.“ Annað dæmi er í DV 1984, en fleiri dæmi finn ég ekki frá níunda áratugnum. Vitanlega geta orð af þessu tagi verið orðin algeng í talmáli löngu áður en þau fara að sjást á prenti, en hvorugt orðanna er þó að finna í Slangurorðabókinni frá 1982 sem bendir til að þau hafi lítið verið farin að heyrast í íslensku um það leyti.
Þetta breyttist upp úr 1990. Í Pressunni 1992 segir: „Mig langar til að gerast klæðskiptingur, detta í það á frumsýningunni og verða „deitið“ hans Júlla“ og elsta dæmi sem ég finn um sögnina er í Helgarpóstinum 1996: „Hefurðu stefnt lífi þínu í hættu að nauðsynjalausu með djarfræðisathöfn; svo sem eins og að „deita“ tvíbura.“ Fram yfir aldamót voru orðin oft höfð innan gæsalappa og jafnvel útskýrð sérstaklega. Í DV 1999 segir: „Það var þó ekki fyrr en í byrjun þessa árs að þau George og Danielle fóru að vera saman, eða deita, eins og það heitir í Ameríku.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Flestir ógiftir ,,deita“, eins og það er kallað og yfirleitt ,,deitar“ fólk hvort annað í marga mánuði áður en það segir orðin kærasta og kærasti.“
Síðan um aldamót hafa bæði nafnorðið og sögnin verið mjög algeng og löngu hætt að hafa þau innan gæsalappa. Í Risamálheildinni eru hátt í 23 þúsund dæmi samtals um orðin og samsetningar með deit- sem fyrri lið, einkum deitmenning en einnig deitsíða, deitmarkaður o.fl. Meginhluti dæmanna er vissulega af samfélagsmiðlum en þó eru hátt í 1900 dæmi úr formlegra máli þannig að orðin hafa fest sig rækilega í sessi í íslensku. Rétt er að benda á að nafnorðið deit hefur tvær merkingar – annars vegar 'stefnumót' eins og „Þegar við förum á deit tölum við ekki um neitt leiðinlegt“ og hins vegar 'persóna sem einhver á stefnumót við' eins og „Við kynntumst þannig að deitið mitt á tónleika komst ekki“ – bæði dæmin úr Fréttablaðinu 2014.
Orðin deit og deita eru vitanlega komin úr ensku en eins og ég hef oft sagt eiga orð ekki að gjalda uppruna síns ef þau falla fullkomlega að íslensku eins og þessi orð gera – deit er hliðstætt heit og deita er hliðstætt leita og neita. Vissulega eiga þau enga ættingja í íslensku en sama máli gegnir um ótal önnur orð í málinu. Þetta eru lipur orð sem bæta úr brýnni þörf, sérstaklega sögnin – ég veit ekki um neina sögn sem væri hægt að nota í stað deita. Stundum er sögnin hitta notuð en merking hennar í þessu samhengi er óljósari. Þar að auki getur deita verið áhrifslaus eins og í „Ertu eitthvað að deita?“ í mbl.is 2015 – þannig er ekki hægt að nota hitta. Því er mál til komið að taka nafnorðið deit og sögnina deita inn í orðabækur – athugasemdalaust.