Að meika sens
Að undanförnu hefur tvisvar verið spurt hér hvaða orð eða orðasamband væri hægt að nota í staðinn fyrir meika sens. Ástæðan fyrir því að fólk amast við þessu sambandi er vitaskuld sú að það er komið úr ensku, make sense, sem merkir 'to be clear and easy to understand' eða 'að vera ljóst og auðskilið'. Í íslensku er þetta oft notað í merkingunni 'hljóma skynsamlega' en er ekki síður notað með neitun – sambandið meikar ekki / engan sens er að finna í Slangurorðabókinni frá 1982 í merkingunni 'vera vitleysa, hafa enga þýðingu/merkingu'. Sögnin meika er bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók en merkt „óformleg“ eða „slangur“. Nafnorðið sens er hins vegar í hvorugri bókinni, og ekki sambandið meika sens.
Elsta dæmi sem ég finn á prenti um meika sens er í skálduðu samtali í Morgunblaðinu 1971: „Þetta „meikar ekki sens“.“ Annað dæmi er í Þjóðviljanum 1979, úr texta Kamarorghestanna: „Því þú ert bara flippað frík sem engan meikar sens.“ Í Helgarpóstinum 1982 er verið að snúa út úr dagskrá útvarps og sjónvarps og þar er einn dagskrárliður: „Íslenskt mál. Fríkaður flippari meikar engan sens. Jón Aðalsteinn Jónsson flytur.“ Í Morgunblaðinu 1984 segir: „T.d. er skólunum kennt um að unglingar vita ekki lengur skil á „einföldum staðreyndum“ Íslandssögunnar en augunum lokað fyrir því að þessar staðreyndir „meika ekki sens“ í veruleika unglinganna.“ Fleiri dæmi frá níunda áratugnum hef ég ekki fundið á prenti.
Stundum er amast við þessu sambandi. Jón G. Friðjónsson segir t.d. í Morgunblaðinu 2003: „Ensk áhrif á íslensku blasa við öllum þeim sem sjá og heyra vilja. Í sumum tilvikum er slíkt góss lítt lagað að íslensku og ætla má að þeir sem það nota beiti því sem nokkurs konar slangri. Sem dæmi þessa má nefna: […] e-ð meikar ekki sens […]. Slík málbeiting getur ekki talist til fyrirmyndar en hún að því leyti meinlaus að ætla má að hún sé í flestum tilvikum einstaklingsbundin, hún er ekki hluti af viðurkenndu málfari.“ En þessi pistill er orðinn átján ára gamall og notkun meika sens hefur margfaldast á þeim tíma. Tíðni sambandsins sýnir að það er orðið hluti af eðlilegu máli margra og notkunin ekki einstaklingsbundin, heldur almenn.
Dæmum um sambandið meika sens hefur smátt og smátt farið fjölgandi síðan á síðasta áratug 20. aldar og það verður mjög algengt á þessari öld. Í Risamálheildinni eru hátt á tólfta þúsund dæmi um það, vissulega langflest úr óformlegu málsniði samfélagsmiðla en þó yfir fimm hundruð úr formlegra máli. Þótt sambandið sé vissulega ættað úr ensku fellur það ágætlega að íslensku – sögnin meika er hliðstæð t.d. reika. Það er kannski ekki alveg eins ljóst að nafnorðið sens falli fullkomlega inn í málið – við höfum vissulega hvorugkynsorð eins og glens og skens, en sens er alltaf haft í karlkyni eins og sést á því að sagt er meika engan / einhvern sens, ekki *ekkert / eitthvert sens. Þó má bera þetta saman við séns, sem vitanlega er tökuorð líka.
Vitanlega er meika sens löngu orðið góð og gild íslenska þótt ekkert sé að því að leita annarra sambanda í staðinn, en ástæða þess hvað sambandið hefur náð mikilli útbreiðslu hlýtur að vera sú að það svarar einhverri þörf. Þetta kemur vel fram í samtali Hugleiks Dagssonar og Jóhönnu Kristjónsdóttur í Fréttablaðinu 2009. Hugleikur: „Ég stend mig oft að því að finna ekki íslenskt orðasamband yfir hlutina. Til dæmis þegar manni finnst eitthvað meika sens. Ég bara finn ekki ekki íslenska orðasambandið yfir það.“ Jóhanna: „Já, það meikar alveg sens. Ekki kem ég því fyrir mig hvert íslenska orðasambandið yfir það er.“ Hugleikur: „Við erum þá kannski ekki með meika sens í orðaforðanum okkar, Íslendingar. Það útskýrir alveg rosalega margt.“