Svar ráðuneytis
Ég hef tvisvar skrifað Mennta- og barnamálaráðuneytinu vegna verkefnisins TEAM-Iceland en það var ekki fyrr en grein mín um málið, og frétt unnin upp úr henni, birtist á Vísi í morgun sem ég fékk viðbrögð frá ráðuneytinu í eftirfarandi tölvupósti:
„Takk fyrir góða athugasemd og áhuga á þessu málefni. Á ráðstefnunni Vinnum gullið verður fjallað um nýja stefnu í afreksíþróttum á Íslandi og ýmsa þætti sem tengjast því verkefni. Team Iceland er fyrst og fremst vinnuheiti sem notað er í erlendum samskiptum og ekki hefur verið fastsett viðeigandi nafn á íslensku á væntanlega afreksmiðstöð. Ráðuneytið mun einnig velja íslenskt vinnuheiti til notkunar á ráðstefnunni og til framtíðar og væri gott að geta leitað til þín í því sambandi.“
Ég svaraði og sagði:
„Það er gott að til stendur að finna íslenskt heiti á verkefnið. En skýringin „Team Iceland er fyrst og fremst vinnuheiti sem notað er í erlendum samskiptum“ lítur satt að segja út eins og dæmigerð eftiráskýring. Tilkynning ráðuneytisins undir fyrirsögninni „Vinnum gullið – TEAM-Iceland til árangurs“ er enn á vef stjórnarráðsins og í henni segir m.a:
- TEAM-Iceland er framtíðarsýn starfshóps mennta- og barnamálaráðherra um íþrótta- og afreksmiðstöð.
- Lagt er upp með að innan TEAM-Iceland verði fremstu sérfræðingar á sviði íþrótta sem vinni saman að því markmiði að hámarka árangur íslensks íþróttafólks.
- TEAM-Iceland verkefnið verður til umfjöllunar á ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi […].
- Með verkefninu TEAM-Iceland er stefnt að því að bæta umhverfi afreksíþróttafólks, s.s. líkamlega þjálfun þeirra og heilsu, efla þátt mælinga og stöðumata, og efla jafnframt þjónustu næringarfræðinga.
- […] markmið TEAM-Iceland væri jafnframt að styðja við framgang og faglega umgjörð Afrekssviða og -brauta í framhaldsskólum landsins.
Þarna er alls staðar verið að tala um framkvæmd verkefnisins innanlands. Erlend samskipti koma þessu máli ekki við – og jafnvel þótt ætlunin væri að nota þetta heiti einkum í erlendum samskiptum á það vitanlega ekki við á þessari ráðstefnu sem væntanlega fer að miklu leyti fram á íslensku. Það er reyndar athyglisvert að í titlum erinda sem fjalla um hliðstæður í öðrum löndum eru heiti þeirra íslenskuð – „Afreksíþróttamiðstöð Lúxemborgar“ og „Afreksíþróttamiðstöð Noregs“. En við tölum um „Team Iceland“. Ekki er annað að sjá en þetta sé opinbert heiti verkefnisins og hvergi kemur fram að þetta sé aðeins vinnuheiti. Mér fyndist hreinlegra að það væri bara viðurkennt að þarna varð ráðuneytinu á í messunni.“