Forfall og mistak

Í Málvöndunarþættinum var nýlega vakin athygli á setningunni „Hann segir að um forfall hafi verið að ræða“ í frétt á Vísi. Vissulega er ævinlega notuð fleirtalan forföll í nútímamáli og sá sem þessi setning var höfð eftir í fréttinni sagðist reyndar í umræðum hafa notað þá mynd. En eintalan er samt ekki alveg óþekkt og er gefin upp í Íslenskri orðabók í merkingunni ‚(lagaleg) hindrun‘ en merkt „fornt/úrelt“. Nokkur gömul dæmi um eintöluna eru í textum frá fyrri öldum, t.d. Íslenzku fornbréfasafni og í Skýringum á fornyrðum íslenzkrar lögbókar eftir Pál Vídalín frá upphafi 18. aldar: „og því síður líklegt, að þeirrar sektar mætti strax á þíngi krefja, meðan engin ransókn væri á gjör, hvört að forfall nokkuð valdid hefði, eður eintómis hyrðuleysi.“

Örfá dæmi eru einnig á tímarit.is, það elsta í Tíðindum um stjórnarmálefni Íslands 1864: „Bregðist nokkur undan að koma til verka þegar hann er til þess kvaddur […] og hann getur ekki sannað lögmætt forfall, þá á hann fyrir það að gjalda í sekt 32 sk. r. m.“ Nýjasta dæmi um eintöluna úr prentmiðli er úr Morgunblaðinu 2018: „Ein okkar hafði reyndar tilkynnt forfall, föst í vinnu.“ Í Risamálheildinni er 21 dæmi um eintöluna, þar af eitt úr ræðu á Alþingi 2018 en 16 af samfélagsmiðlum, t.d. „Mjög súrsætt móment þegar að maður er vaknaður og fær svo tilkynningu um forfall kennarans í fyrsta tíma.“ En þótt eitthvað sé greinilega um það að eintalan sé notuð í óformlegu máli eru dæmin samt svo fá að varla er hægt að tala um málvenju.

En í umræðu um forfall var nefnt annað orð sem einnig er nær eingöngu haft í fleirtölu: mistök. Um það gildir svipað og forfall, að eintalan mistak er gefin í Íslenskri orðabók en merkt „fornt/úrelt“ og vísað á mistök. Eina dæmið um eintöluna í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr Hugvekju um Medferd á úngbørnum eftir Jón Thorstensen frá 1846: „að sjúkdómurinn orsakist af einhvörju mistaki.“ Elsta dæmi á tímarit.is er úr Morgunblaðinu 1924: „Eitt glappaskot getur valdið miklu tjóni á sama hátt og eitt mistak á stjórntaumum báts í brimi getur valdið löskun, áfalli.“ Rúm 20 dæmi eru um eintölumyndir orðsins á tímarit.is og innan við 10 í Risamálheildinni, nær öll af samfélagsmiðlum. Þar er því ekki heldur hægt að tala um málvenju.

Ekkert í formi eða merkingu orðanna forföll og mistök kallar á að þau séu höfð í fleirtölu og erfitt er að átta sig á hvers vegna sú málvenja hefur skapast að nota þau þannig. Fyrirbærin sem þau vísa til eru teljanleg og reyndar eru töluorðin tvö, þrjú og fjögur oft höfð með orðunum eins og þau væru til í eintölu – sagt tvö forföll, þrjú mistök o.s.frv. í stað tvenn forföll og þrenn mistök. Merkingarlega og formlega mælir ekkert á móti því að segja t.d. það var forfall hjá mér í dag og það hafa verið nokkur forföll að undanförnu, og ég gerði mistak áðan en ég geri sjaldan mistök – en það er bara ekki málvenja. Það er rétt að halda sig við málvenjuna – en hins vegar væru engin málspjöll ef hún breyttist og farið yrði að nota þessi orð í eintölu líka.