Aukum talsetningu barnaefnis!
Fram yfir miðjan níunda áratug síðustu aldar heyrði það til undantekninga ef leikið erlent efni var sýnt með íslenskri talsetningu í sjónvarpi eða kvikmyndahúsum, hvort sem það var ætlað börnum eða fullorðnum. Erlent barnaefni var yfirleitt sýnt með íslenskum neðanmálstexta sem gagnast ungum börnum vitaskuld lítið. En strax á fyrsta starfsári sínu sumarið 1987 fór Stöð tvö að talsetja íslenskt barnaefni. Vorið 1989 var í tengslum við málræktarátak Svavars Gestssonar menntamálaráðherra „gerð áætlun um talsetningu alls barnaefnis í sjónvarpi og stefnt að því að allt barnaefni verði á íslensku“ og um svipað leyti ákvað Ríkisútvarpið að allt efni fyrir börn yngri en tíu ára skyldi talsett, og í lok ársins voru 95% barnaefnis á RÚV orðin talsett.
Kvikmyndahúsin fylgdu svo á eftir. „Enn sem komið er er ekki algengt að sett sé íslenskt tal við bamamyndir en það á örugglega eftir að breytast“ segir í DV 1991 og sú varð raunin – upp úr þessu var farið að talsetja flestar barnamyndir sem sýndar voru í kvikmyndahúsum, svo sem Disney-myndir, og fólk innan við fertugt sem er uppalið á Íslandi hefur því alist upp við talsett barnaefni frá blautu barnsbeini. Lítill vafi er á að þetta hefur haft veruleg jákvæð áhrif á málþroska, málkunnáttu og íslenskan orðaforða þessa fólks, enda hefur talsetningin oftast verið vönduð, á góðu og lipru máli. Flestir foreldrar kannast væntanlega við að börn þeirra grípi upp orð og orðatiltæki úr barnaefni í sjónvarpi og bregði fyrir sig í tíma og ótíma.
En nú eru blikur á lofti. Mér skilst að það hafi dregið mjög mikið úr framboði talsettra teiknimynda í íslensku sjónvarpi undanfarin ár og líkur séu á að sú óheillaþróun haldi áfram. Jafnvel sé hugsanlegt að vinsælar þáttaraðir sem hafa verið talsettar verði það ekki áfram þannig að börn sem vilja halda áfram að horfa á þær verið að sætta sig við að horfa á þær á ensku. Þetta er grafalvarlegt mál. Hafi talsetning barnaefnis þótt mikilvæg fyrir 30-35 árum er hún margfalt mikilvægari nú. Ástæðan er sú að efni á ensku, þar á meðal barnaefni, flæðir yfir okkur sem aldrei fyrr, frá erlendum sjónvarpsstöðvum og einkum á netinu. Þess vegna er bráðnauðsynlegt að til mótvægis sé einnig til vandað efni á íslensku sem hægt er að bjóða börnunum.
Það er hætta á að við verðum sífellt ónæmari fyrir enskunni í umhverfi okkar og hættum að gera kröfur um talsett íslenskt barnaefni – hugsum sem svo að börnin skilji hvort eð er efni á ensku. Íslensk talsetning er líka dýr og í sjálfu sér ekkert undarlegt að þegar harðnar á dalnum hjá fjölmiðlum komi það niður á talsetningunni. Þess vegna verða stjórnvöld að koma hér til og tryggja að metnaðarfullri talsetningu barnaefnis verði haldið áfram og hún aukin. Úr því að hægt er að verja milljörðum króna úr ríkissjóði til að endurgreiða erlendum aðilum kostnað vegna kvikmyndagerðar hlýtur að vera hægt að setja myndarlegar upphæðir í greiðslur til íslenskra sjónvarpsstöðva vegna íslenskrar talsetningar á barnaefni. Íslenskan er í húfi.