Munuð atriði og vitaðir hlutir

Í gær var hér spurt hvernig ætti að nota sögnina muna í þolmynd – „ef munað er eftir einhverjum atriðum, eru þau þá munuð atriði, mund atriði … eða hvað eru þau?“. Þetta er ágæt spurning og skiljanleg – í þolmynd er notaður lýsingarháttur þátíðar en sú beygingarmynd er ekki gefin upp fyrir muna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Stundum er því haldið fram að ekki sé hægt að mynda þolmynd af núþálegum sögnum, en muna er ein af þeim ásamt eiga, mega, unna, kunna, munu, skulu, vilja, vita og þurfa, og Beygingarlýsingin gefur ekki upp lýsingarhátt þátíðar af neinni þessara sagna en viljaður og vitaður eru þar sem lýsingarorð. Samt er ljóst að sumar þeirra eru notaðar í lýsingarhætti þátíðar og geta staðið í þolmynd, a.m.k. muna og vita.

Dæmið sem spurt var um, munuð atriði, kemur einmitt fyrir í Menntamálum 1955, og slæðingur er af öðrum dæmum um lýsingarháttinn í ýmsum myndum. „Þau verk hans verða lengi munuð og verða metin honum til lofs“ sagði Bjarni Benediktsson og „Þessi málflutningur verður munaður“ sagði Gylfi Þ. Gíslason, báðir í ræðum á Alþingi 1949. Í Alþýðublaðinu 1949 segir: „Sú gjöf mun lengi munuð verða.“ Í Verkamanninum 1960 segir: „Sögurnar í Góðu fólki og fleiri sögur Einars Kristjánssonar verða lengi munaðar og lesnar.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Hann er einn þeirra manna, sem verða munaðir.“ Í Morgunblaðinu 1985 segir: „Á grundvelli þessa, skiptir Freud hverjum draumi í tvo þætti: í fyrsta lagi er um að ræða hinn munaða draum.“

Lýsingarhátturinn vitaður er gefinn í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók í merkingunni 'kunnur'. Um hann er töluvert af dæmum frá ýmsum tímum. Í Vísi 1912 segir: „Það er vitaður hlutur, að þeir menn, sem nefndir eru í 11. gr., hafa eigi fjármagn til að reka slíkt fyrirtæki.“ Í Alþýðumanninum 1934 segir: „Sé verklýðsfélagið ekki í Alþýðusambandinu, er ósigur þess vitaður fyrirfram.“ Í NT 1984 segir: „Þegar maður deyr fer forgörðum brot vísdóms sem var aldrei áður vitaður og verður aldrei vitaður aftur.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Nánari upplýsingar um tildrög slyssins eru ekki vitaðar.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Hún segir uppruna svetts ekki vitaðan með vissu.“

Í mörgum dæmanna hefur lýsingarhátturinn líklega setningarhlutverk lýsingarorðs en þó eru nokkur dæmi um ótvíræða þolmynd með af-lið. Í Fálkanum 1932 segir: „Lögin, sem mest ber á í myndinni eru einkar skemtileg og verða sjálfsagt munuð af þeim, sem heyra hana.“ Í Austurlandi 1967 segir: „Afstaða Jónasar Péturssonar til þessa máls verður ábyggilega munuð af Norðfirðingum og fleiri Austfirðingum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1970 segir: „En þessi hrottaskapur var vitaður af mörgum sjófarendum.“ Í Skírni 1955 segir: „Hlutveruleikinn er […] veruleiki, sem á sér tilvist einnig þar, sem hann er ekki „vitaður“ af neinum.“ Í Morgunblaðinu 1975 segir: „Þessi þáttur æfingarinnar var ekki vitaður af björgunarsveitarmönnum.“

Það er því enginn vafi á að sagnirnar muna og vita eru til í lýsingarhætti þátíðar og af setningum með þeim er stundum hægt að mynda þolmynd. Öðru máli gegnir um aðrar núþálegar sagnir – þær er yfirleitt ekki hægt að nota í þolmynd og Höskuldur Þráinsson hefur t.d. bent á að ekki sé hægt að segja *Bíllinn var áttur af forstjóra ríkisfyrirtækis. Þótt einstöku gömul dæmi um lýsingarhætti megi reyndar finna eins og „í hrepp hverjum voru áttar 3 lögsamkomur“ í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1861, „Hinn fyrsti safnaðarfundur í höfuðstað landsins var áttur 31. júlí um hádegi“ í Norðanfara 1880 og „viljaður hverjum manni betur til að verða þjóð sinni til nytsemdar“ í Ísafold 1894 má fullyrða að þau séu fjarri málkennd fólks nú á tímum.