Frosið typpi
Ein helsta hættan sem þýðendur þurfa að varast eru svokallaðir falsvinir (false friends á ensku, faux amis á frönsku) – falsvinur er „orð sem hefur aðra merkingu í erlendu máli en búast má við miðað við merkingu sams konar orðs í öðru máli“ eins og segir í Íslenskri orðabók. Þýðingarvillur sem rekja má til falsvina sjást stundum í erlendum fréttum fjölmiðla – þar er fólk sem er ekki endilega vanir þýðendur að vinna undir tímapressu og þá er hætta á að gripið sé til orða sem svipar til orðanna í frumtextanum án þess að hugað sé að því að merkingin gæti verið önnur. Eitt slíkt dæmi sá ég á vefmiðli í dag: „Typpið á mér er frosið […]. Ég þurfti að liggja inni í hitakompunni í tíu mínútur til þess að hita það. Þetta er ótrúlega vont.“
Í fréttinni er vitnað í sænska blaðið Expressen þar sem segir: „Den svenske skidstjärnan förfrös sitt könsorgan.“ Þetta dæmi er ekki það fyrsta af þessu tagi – í fyrra sá ég fyrirsögnina „Typpi skíðagarps fraus í annað sinn á einu ári“. Þar er vitnað í færslu á Twitter þar sem segir: „Finnish skier's penis froze in the middle of the competition.“ En í báðum tilvikum eru það falsvinir sem hafa leitt þýðendur fréttanna á villigötur. Orðið frosið er hvorugkyn lýsingarháttar þátíðar af sögninni frjósa sem merkir 'kólna niður fyrir frostmark' – 'harðna af völdum frosts og kulda, breytast í ís' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Ef einhver líkamshluti frýs dugir ekki að hita hann upp – honum verður ekki bjargað, hann er kalinn og stórskemmdur eða dauður.
Falsvinirnir sem um ræðir eru sænska sögnin förfrysa og enski lýsingarhátturinn frozen sem vissulega eru af sama uppruna og frjósa og frosinn á íslensku. En sögnin förfrysa merkir þó ekki 'frjósa' í þessu samhengi, heldur „om person l. djur (äv. om kroppsdel): i högre grad förlora kroppsvärmen på grund av kyla, bliva fördärvad l. skadad av köld“ – þ.e. 'um fólk eða dýr (einnig um líkamshluta): að glata líkamshitanum að verulegu leyti vegna kælingar, eyðileggjast eða skaðast af kulda'. Enski lýsingarhátturinn frozen merkir ekki heldur sama og frosinn þegar hann er notaður um fólk: „If a person, or a part of their body is frozen, they are, or it is, very cold“ – þ.e., ‚'ef mannvera eða hluti líkama hennar er frozen er hún eða hann mjög köld'.
Ég hef talað hér eins og það séu ótvíræðar villur að þýða förfrysa sem frjósa og frozen sem frosinn – mistök sem þýðendur fréttanna hafi gert vegna þess að þeir hafi ekki kynnt sér merkingu erlendu orðanna heldur gefið sér að þau merktu það sama og samsvarandi íslensk orð. En annar möguleiki er reyndar sá að merking orðanna í íslensku sé að breytast (væntanlega þá fyrir áhrif frá ensku) – að frjósa og frosinn hafi ekki endilega þá merkingu núorðið að 'kólna niður fyrir frostmark', heldur geti merkt 'verða mjög kalt' í máli sumra. Í því tilviki gætu þýðendurnir hafa verið að nota orðin í samræmi við eigin skilning á þeim. Það er annars konar frávik frá hefðbundnu máli en beinar þýðingarvillur – en kannski ekki endilega betra.