Hristu þau höfuðið – eða höfuðin?

Í Málfarsbankanum segir: „Það fer betur á að segja þeir hristu höfuðið en „þeir hristu höfuðin“. Sömu athugasemd má finna víðar. Í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2012 segir: „Sumir útlendingar hrista höfuðin þegar við hristum höfuðið. Höldum endilega áfram að hrista það“, og í sama dálki árið 2014 segir: „Gaman væri ef sú venja lifði að segja frekar: […] Þau hristu höfuðið en „hristu höfuðin“.“ Trúlegt er að þetta boðorð eigi rætur að rekja til kversins Gætum tungunnar frá 1984 þar sem segir: „Sagt var: Þeir hristu höfuðin. Þetta er erlend setningargerð. Rétt væri: Þeir hristu höfuðið. (Hið fyrra gæti átt við þríhöfða þursa.)“ Rökin fyrir því að nota eintölu eru sem sé þau að við erum óumdeilanlega bara með eitt höfuð hvert og eitt.

En ef Jón hristir höfuðið og Gunna hristir líka höfuðið er ljóst að það er ekki sama höfuðið sem þau eru að hrista, heldur hrista þau hvort sitt höfuð. Það eru því óumdeilanlega tvö höfuð sem eru hrist og því hlýtur fleirtalan að teljast „rökrétt“ þarna. En málið er ekki endilega alltaf rökrétt svo að það dugir ekki til að réttlæta fleirtöluna ef annað mælir gegn henni. Það gæti t.d. verið að um væri að ræða erlenda setningagerð, eins og haldið er fram í Gætum tungunnar, sem stríddi gegn íslenskri málhefð. En þótt notuð sé fleirtala í ensku og sagt they shook their heads eru það engin rök gegn því að nota fleirtölu í íslensku, nema hægt sé að sýna fram á að engin hefð sé fyrir fleirtölunni í þessu sambandi í málinu heldur sé verið að apa hana upp eftir ensku.

En því fer fjarri að svo sé. Fleirtalan hefur verið notuð í þessu samhengi í margar aldir og m.a. eru dæmi um hana í elstu prentuðu bók á íslensku, Nýja testamentinu í þýðingu Odds Gottskálkssonar frá 1540. Í Mattheusarguðspjalli segir „Og þeir sem þar gengu hjá hæddu hann, skakandi höfuð sín“ og í samsvarandi setningu í Markúsarguðspjalli segir „skóku höfuð sín“. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 eru svo nokkur dæmi í viðbót. Einnig má nefna að í greininni „Frá Thaddæus Kosciuszko“ sem birtist í Fjölni 1838 og sögð er eftir ekki minni málsmekksmenn en Jónas Hallgrímsson og Konráð Gíslason segir: „Enn þeir, sem næstir honum voru, snurtu knje hans hinni hægri hendi, tóku ofan, og dreifðu dupti á höfuð sín til iðrunarmerkjis.“

Mikinn fjölda dæma um fleirtöluna hrista höfuðin og önnur sambærileg sambönd má finna allt frá 19. öld til samtímans. Það er ljóst að notkun bæði eintölu og fleirtölu í þessu sambandi er í samræmi við íslenska málhefð og þótt elstu fleirtöludæmin séu úr þýðingu Nýja testamentisins dugir það varla sem rök fyrir því að kalla þetta erlenda setningagerð sem beri að forðast. En það þýðir ekki að hægt sé að nota fleirtölu í *þau voru með hjörtun í buxunum eða *þau voru að bora í nefin á sér þótt það geti virst rökrétt og hliðstætt við þau hristu höfuðin. Fyrir því er engin hefð og málið er fullt af alls konar óútskýrðu og tilviljanakenndu ósamræmi – sem er einn af töfrum þess. Hér hlýtur málhefð að ráða en ekki tilbúin regla sem hver étur upp eftir öðrum.