Sælir eru fattlausir – og seinfattaðir
Sögnin fatta í merkingunni 'skilja' „mun lengi hafa verið notuð í reykvísku slangi að minnsta kosti og er komin úr dönsku“ segir Árni Böðvarsson í Þjóðviljanum 1961. Áður hafði hún reyndar lengi verið notuð í merkingunni 'botna, festast í botni' (um akkeri). Hún kemur ekki fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og elsta dæmi sem ég finn um hana á prenti í merkingunni 'skilja' er í Rauða fánanum 1937: „„Eg get bara ekki fattað þetta“, sagði Ribbentrop.“ Í Þjóðviljanum 1967 segir: „Sagnirnar: fatta, redda og rísikera eru orðnar algengt mál fyrir löngu. En reynt gætu skólarnir að stugga við þeim.“ Sögnin er merkt „óformlegt“ bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók en er mjög algeng á seinni áratugum.
Hún hefur líka eignast ýmis afkvæmi í íslensku. Vorið 1965, þegar ég var tíu ára, kom frændi minn og jafnaldri að sunnan í sumardvöl til okkar í sveitina í Skagafirði. Af honum lærðum við systkinin ýmislegt um hvað var í gangi meðal reykvískra barna á þessum tíma, þar á meðal ný orð. Eitt þeirra orða sem ég lærði þetta sumar var lýsingarorðið fattlaus. Þótt ég muni það ekki fyrir víst finnst mér trúlegt að ég hafi þekkt sögnina fatta áður en þetta var alveg nýtt fyrir mér, þótt það væri ekki alveg nýtilkomið í málinu. Þannig segir Árni Böðvarsson í Þjóðviljanum 1961: „Ósköp ertu fattlaus“ er algengt orðalag í Reykjavík. Það er að sjálfsögðu samsetningur (með nokkuð undarlegum hætti) úr sögninni að fatta og viðskeytinu laus.“
Vissulega er myndun orðsins sérkennileg. Lýsingarorðið (eða viðskeytið) -laus tengist yfirleitt nafnorðum – orðlaus, vitlaus, snjólaus, skammlaus, húfulaus o.s.frv. (og svo lýsingarorði í allslaus). Nafnorðið *fatt hefur þó aldrei verið til þannig að fattlaus hlýtur að vera komið af sögninni fatta eins og Árni sagði. Annað óvenjulegt við þessa orðmyndun er að þar er skeytt saman tökusögn og íslensku lýsingarorði – slík orðmyndun er sjaldgæf þótt hún sé ekki einsdæmi. En þótt fattlaus sé rúmlega sextíu ára gamalt er það hvorki að finna í Íslenskri orðabók né Íslenskri nútímamálsorðabók enda skýrir það svo sem sig sjálft, en er í Íslenskri stafsetningarorðabók og Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, og í Slangurorðabókinni.
Orðið fattlaus er auðvitað óformlegt ekki síður en fatta – „þetta orð er nú víst ekki góð íslenzka“ segir í Alþýðumanninum 1970. Því er ekki von á að finna það mikið á prenti – dæmin um það á tímarit.is eru aðeins um 50. Það elsta er áðurnefnt dæmi Árna Böðvarssonar frá 1961, en næst kemur spakmæli í stíl Fjallræðu Jesú sem er að finna í Alþýðublaðinu sumarið 1965 og ég lærði einmitt af áðurnefndum frænda mínum um svipað leyti: „Sælir eru fattlausir sem fatta ekki hvað þeir eru vitlausir.“ Þetta þótti býsna fyndið á sínum tíma og nokkur dæmi eru um það á tímarit.is og í Risamálheildinni, oft með því þeir í stað sem. En í óformlegu máli er orðið fattlaus mjög algengt – í Risamálheildinni er á tólfta hundrað dæma um það, nær öll af samfélagsmiðlum.
Annað orð sem er komið af fatta er lýsingarorðið seinfattaður sem ég lærði líka af frænda mínum sumarið 1965. Það orð er ekki í neinum orðabókum, engin dæmi eru um það á tímarit.is, aðeins eitt í Risamálheildinni og Google finnur tvö á netinu. Aftur á móti eru tvö dæmi á tímarit.is um óbeygjanlega lýsingarorðið seinfatta, það eldra í Morgunblaðinu 1975: „Norska blaðið Verdens Gang og sænska blaðið Expressen taka þátt í þessu brandarastríði og birta næstum því á hverjum degi brandara um skrýtinn Svía og „seinfatta“ Norðmann.“ Í Risamálheildinni eru tæp 50 dæmi um orðið frá þessari öld, öll af samfélagsmiðlum – t.d. „Þeir voru eitthvað svo seinfatta þar til annar sem var á eftir mér lét vita“ á Bland.is 2008.
Orðunum seinfatta og seinfattaður svipar til fyrirsagnar í Mánudagsblaðinu 1962: „Með of seinan fattara.“ Þarna er komið elsta dæmi um enn eitt orðið sem fatta hefur getið af sér og er ekki er að finna í neinum orðabókum. Alls eru átta dæmi um orðið fattari á tímarit.is – í Morgunblaðinu 2012 segir t.d.: „Víkverji er einstaklega seinn í hugsun – með langan fattara eins og sagt er á góðri íslensku.“ Í Risamálheildinni er á þriðja hundrað dæma um orðið, öll nema fjögur af samfélagsmiðlum. Það má því með sanni segja að sögnin fatta hafi blómstrað í íslensku. Hún og afkvæmi hennar: fattari, fattlaus, seinfatta og seinfattaður, falla vel að málinu og eru hin nýtustu orð – vissulega fremur óformleg, en slík orð eru ekki síðri íslenska en hin.