Glatað skilríki

Í Málvöndunarþættinum var nýlega vakin athygli á skjali á heimasíðu banka nokkurs þar sem orðið skilríki er notað í eintölu – „skannað skilríki sitt“ og „afrit af […] vottuðu skilríki“. Vissulega er orðið skilríki eingöngu gefið upp sem fleirtöluorð bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók, og engin eintala gefin af því í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. En í fornu máli var orðið ekki síður haft í eintölu en fleirtölu, í merkingunni „Bevislighed som nogen har at fremføre til Godtgjørelse af sin Paastand, til Hævdelse af sin Ret“  eða 'vitnisburður sem maður færir fram til að staðfesta orð sín, til að krefjast réttar síns' eins og segir í Ordbog over det gamle norske Sprog eftir Johan Fritzner.

Þannig segir t.d. í Guðmundar sögu biskups: „Þessir nefndarmenn skulu dæma í lögréttu öll þau mál, er þangat bjóðast, með prófuðu skilríki, ok ei verða samin í héraði.“ Mörg eldri dæmi um orðið í Ritmálssafni Árnastofnunar eru í eintölu, en vissulega er orðið oft notað í dálítið annarri merkingu en þeirri sem það hefur í nútímamáli, 'skírteini (vegabréf e.þ.h.) til að sanna hver viðkomandi einstaklingur er'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið sagt merkja 'Bevis, Bevismiddel, Bevislighed; Dokument'. Þar er „sönnunargagn“ sett í sviga og sú merking á t.d. við í Þjóðólfi 1886: „það er blóðugt að sjá lönd eða hlunnindi hafa gengið undan jörð sinni af þeirri ástæðu einni, að skilríkið kemur einum deginum of seint.“

Þetta er þó vitanlega náskylt, og nútímamerkingin kemur t.d. fram í Vísi 1916: „Þér verðið fyrst að sjá skilríki mitt“, og enn skýrar í Vísi 1945: „Hann hélt á skilríki, sem sannaði hver hann var, en skilríkið var sérstakt spjald, með mynd hlutaðeiganda, nauðsynlegum áritunum og stimplum o. s. frv..“ Allmörg dæmi má finna um eintöluna í þessari merkingu, t.d. „Þetta skilríki fæst fyrir lítinn pening, er handhægt í meðförum og fer vel í vasa“ í Alþýðublaðinu 1959, „Hann afhenti honum skilríki sitt“ í Vísi 1959, „þá getur verslunarstjóri eða staðgengill hans gefið út inneignarnótu á nafn viðskiptavinarins gegn framvísun skilríkis með mynd“ í Neytendablaðinu 1992, „Ljósmyndin á skilríkinu þarf að vera skýr“ í Morgunblaðinu 2014, o.s.frv.

Við eigum flest margs konar skilríki – ökuskírteini, vegabréf o.fl., og því er ekkert skrítið að fólki finnist eðlilegt að hafa orðið í eintölu þegar það vísar til einnar tegundar skilríkja. Það ýtir svo undir þetta að eintölu- og fleirtölumyndir orðsins falla saman í nefnifalli og þolfalli. Á seinustu árum hefur notkun eintölunnar stóraukist – í Risamálheildinni er a.m.k. á annað þúsund dæma um hana, en vegna áðurnefnds samfalls er oft útilokað að sjá um hvora töluna er að ræða. Eintalan er m.a.s. komin inn í lög – í Lögum um fjármálafyrirtæki er talað um „Glatað skilríki“. Eintalan er fullkomlega eðlileg og rökrétt og á sér langa hefð í málinu og ég legg til að skilríki verði notað – og viðurkennt – í eintölu og fleirtölu eftir því sem við á, rétt eins og skírteini.