Það var beðið mig að vaska upp

Í gær heyrði ég setninguna „Það var beðið mig að vaska upp“ í viðtalsþætti í Ríkisútvarpinu. Þetta er hin svokallaða „nýja þolmynd“ sem Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling greindu fyrstar ítarlega kringum aldamótin. Síðan hefur mikið og oft verið fjallað um þessa setningagerð, bæði fræðilega og í almennri málfarsumræðu, og ég hef áður skrifað um hana hér. Elstu þekktu dæmi um hana eru meira en 80 ára gömul en hún hefur einkum breiðst út á síðustu þremur áratugum eða svo. Augljóst er að börn tileinka sér þessa setningagerð á máltökuskeiði og rannsóknir benda til að þegar börnin fullorðnast dragi úr notkun a.m.k. sumra þeirra á henni og sum leggi hana jafnvel alveg af, en hún virðist haldast að einhverju leyti í máli margra.

Nýja þolmyndin – sem reyndar eru skiptar skoðanir um hvort sé þolmynd eða ekki – er mörgum þyrnir í augum, enda talsvert ólík hefðbundinni þolmynd. Germynd áðurnefndrar setningar er (einhver ónefndur) bað mig að vaska upp, og í hefðbundinni þolmynd er hjálparsögnin vera sett inn í setninguna, aðalsögnin biðja sett í lýsingarhátt þátíðar, beðin(n), og þolandinn, mig, tekinn úr andlagssæti næst á eftir sögninni og færður í dæmigert frumlagssæti fremst í setningunni. Við það fá þolfallsandlög jafnframt dæmigert fall frumlagsins, nefnifall – útkoman verður ég var beðin(n) að vaska upp. Þágufallsandlög halda aftur á móti falli sínu þótt þau færist í frumlagssæti – germyndin (einhver ónefndur) bjargaði mér verður mér var bjargað í þolmynd.

Í nýju þolmyndinni fær þolandinn aftur á móti að vera kyrr í andlagssætinu á eftir sögninni og heldur falli sínu. Í stað þolandans er frumlagssætið í upphafi setningarinnar fyllt með merkingarsnauðu það, en einnig er hægt að hafa atviksorð eða forsetningarlið fremst í setningunni, t.d. áðan var beðið mig að vaska upp eða í morgun var beðið mig að vaska upp. Þótt ég sé ekki alinn upp við nýju þolmyndina og hún sé ekki mitt mál hef ég heyrt hana svo oft og lesið svo mikið um hana að ég er löngu hættur að kippa mér upp við hana og farinn að fá dálitla tilfinningu fyrir henni, finnst mér. Og ég áttaði mig á því í gær að mér fannst setningin það var beðið mig að vaska upp fullkomlega eðlileg í því samhengi sem hún var sögð.

En ekki bara það: Mér fannst hún eiga betur við þarna en hin hefðbundna þolmynd, ég var beðinn að vaska upp. Ég held að ástæðan sé sú að með því að þolandinn sé kyrr í sínu sæti á eftir sögninni komi meiri áhersla á þolandahlutverk andlagsins en ef það færðist í frumlagssætið (og fengi þar nefnifall ef um þolfallsandlag er að ræða). Frumlagssætið er hið dæmigerða sæti gerandans og nefnifall hið dæmigerða fall gerandans, og ég held að með því að þolandanum séu gefin þessi tvö dæmigerðu einkenni gerandans breytist viðhorf okkar til hans – við skynjum hann ekki sem eins mikinn þolanda, eða fórnarlamb, og ef hann er í germyndarstöðu sinni. En ef hann fær að vera kyrr á eftir sögninni heldur hann þolandahlutverkinu úr germyndinni alveg.

Í ljósi þessa er eðlilegt að nýja þolmyndin komi upp og sé algeng í máli barna. Börn upplifa sig örugglega oft sem þolendur sem hafi litla stjórn á eigin lífi – það er alltaf verið að ráðskast eitthvað með þau. Dæmigerðar setningar eins og það var látið mig fara að sofa, það var beðið mig að fara, það var barið mig, það var skilið mig útundan, það var hrint mér, það var sagt mér að þegja o.s.frv. lýsa þessu áhrifa- og varnarleysi miklu betur en ég var látin(n) fara að sofa, ég var beðin(n) að fara, ég var barin(n), ég var skilin(n) útundan, mér var hrint, mér var sagt að þegja o.s.frv. Þessi börn halda síðan áfram að nota nýju þolmyndina við svipaðar aðstæður þegar þau fullorðnast – en sjaldnar, því að þá hafa þau meiri stjórn á eigin lífi.

Á Bland.is rakst ég á mjög áhugaverða setningu: „Ég gerði það þannig við minn pjakk að hann var látinn í rúmið sitt og svo var látið hann grenja í 5 mín fyrst.“ Þarna er fyrst hefðbundin þolmynd, hann var látinn í rúmið, og svo ný þolmynd með sömu sögn, svo var látið hann grenja. Seinna dæmið sýnir þolanda- og fórnarlambshlutverkið vel og það hefði hljómað mun óeðlilegar að víxla þessu og segja það var látið hann í rúmið og svo var hann látinn grenja. Ég áttaði mig meira að segja á því að ég nota nýju þolmyndina stundum svona sjálfur. Ef mér finnst vera ráðskast með mig segi ég stundum það var látið mig ryksuga eða eitthvað slíkt – vissulega í gríni, en mér finnst ég miklu meira fórnarlamb svona en ef ég segði ég var látinn ryksuga.

Ég hef borið þessa tilfinningu undir fleira fullorðið fólk, sem ekki er heldur alið upp við nýju þolmyndina, og sumt af því kannast við hana líka þannig að ég held að þetta sé ekki ímyndun í mér. En ef þetta er rétt þýðir það að nýja þolmyndin gegnir eilítið öðru merkingarlegu hlutverki en hin hefðbundna þolmynd og þess vegna er engin ástæða til að ætla annað en báðar setningagerðirnar geti lifað hlið við hlið um langa framtíð. Ég veit að mörgum finnst nýja þolmyndin ljót en hún er hluti af máli yngri kynslóðanna og ekkert á förum. Í stað þess að ergja sig yfir henni ættum við að bjóða hana velkomna og fagna því að þarna er komin inn í íslenskuna ný setningagerð sem gegnir ákveðnu hlutverki og auðgar því málið en spillir því ekki.