Andartak, augnablik – og móment

Ég sé stundum gerðar athugasemdir við orðið móment sem hefur töluvert verið notað í málinu undanfarið. Orðið fór að stinga sér niður í blöðum og tímaritum upp úr 1970 en dæmum fjölgaði verulega eftir 1990 og einkum á þessari öld. Á tímarit.is eru um 840 dæmi um orðið, þar af um 730 frá þessari öld. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt í tíu þúsund, þar af rúm átta þúsund af samfélagsmiðlum. Orðið er kannski ekki sérlega íslenskulegt en nokkur hliðstæð tökuorð eru þó til í málinu – algengast er sement en önnur eru t.d. sakrament og testament sem þó eru algengari í myndunum sakramenti og testamenti, en einnig pergament, element og komment – það síðastnefnda merkt „óformlegt“ bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók.

Oft er sagt að móment sé með öllu óþarft orð og í stað þess eigi að nota íslensku orðin andartak eða augnablik. Fyrrnefnda orðið merkti reyndar til skamms tíma 'andardráttur' en það síðarnefnda hefur oft verið litið hornauga vegna dansks uppruna síns. Jón Aðalsteinn Jónsson segir í Morgunblaðinu 1990: „Elzta dæmi no. augnablik í OH er frá um 1600. Er það úr guðsorðariti, prentuðu á Hólum: „er þad ecke nema so sem eitt Augnablik ad reikna“, eins og þar stendur stafrétt. Það er Guðbrandur biskup, sem þýðir svo. Þá kemst sr. Hallgrímur þannig að orði í Passíusálmum sínum: „fæst sízt með fögru gjaldi / frestur um augnablik“. Mörg önnur dæmi er unnt að tilgreina allt fram á okkar dag og oftast um stutt tímamark.“

Í upptalningu á „röngum málvenjum“ í Samtíðinni 1943 segir Björn Sigfússon: „Augnablik er úr dönsku, Öjeblik, en heitir á íslenzku augabragð.“ En viðhorfin til orðsins augnablik hafa mildast með árunum. Í öðrum pistli frá 1990 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson: „Augnablik merkir […] andartak, örstutta stund. Það er sú merking, sem mun almennust í mæltu máli og margir hafa horn í síðu, þar sem hún er tökumerking úr dönsku, og álíta því, að no. andartak sé vandaðra mál og fari oftast betur í íslenzku en no. augnablik. Þessu orði hefur samt skolað upp á strönd Islands fyrir mörgum öldum og verður tæplega sent á haf út úr þessu.“ Og í  Málfarsbankanum er gengið alla leið og sagt: „Augnablik og andartak eru jafngild orð.“

En aftur að orðinu móment. Það er flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók, sagt „óformlegt“ og skýrt 'mjög stutt stund, augnablik, andartak', en þetta er ekki fullnægjandi skýring. Orðið merkir oft 'hápunktur, blómatími' eða jafnvel 'tækifæri' eða eitthvað í þá átt, eins og t.d. í „Samt eigum við nú okkar móment í glápi, bæði í tölvu og sjónvarpi“ í Morgunblaðinu 2015, „Það er samt ekki alveg þannig að ég hafi ekki átt mín móment sem íþróttahetja á mínum yngri árum“ á mbl.is 2019, „Við klúðruðum mörgum færum og KR áttu sín móment“ í Vísi 2020, og „Að mínu mati var eitt lið á vellinum, þeir áttu sitt móment í 20 mínútur“ á fótbolti.net 2013. Í síðasta dæminu er vitaskuld greinilegt að merkingin er ekki 'mjög stutt stund'.

Orðin andartak og augnablik eru bæði skýrð 'örstutt stund' og auk þess hvort með öðru í Íslenskri nútímamálsorðabók en í skýringuna vantar að orðin geta annars vegar vísað til tímapunkts og hins vegar verið tímamæling. Í þetta gerðist á sama andartaki / augnabliki er um tímapunkt að ræða en í bíddu andartak / augnablik, ég verð til eftir andartak / augnablik og þau komu eftir fáein andartök / augnablik er um tímamælingu að ræða. Enska orðið moment hefur báðar merkingarnar en ég held að í íslensku hafi tökuorðið móment aðeins þá fyrrnefndu – það er tæpast hægt að segja *bíddu (eitt) móment, *ég verð til eftir móment eða *þau komu eftir fáein móment. Þarna greinir móment sig skýrt frá bæði andartak og augnablik.

Þegar metið er hvort erlent tökuorð eigi erindi inn í íslensku skiptir máli hvort það hefur sömu merkingu og eitthvert orð sem fyrir er í málinu. Ef móment getur merkt annað en andartak og augnablik eru það því rök fyrir því að nota orðið í íslensku. Ég held reyndar að í a.m.k. sumum dæmum um móment hér að framan væri einnig hægt að nota orðið augnablik sem bendir þá til þess að orðabókaskýring þess, 'örstutt stund, andartak' þarfnist líka endurskoðunar að því leyti. Aftur á móti fyndist mér orðið andartak óeðlilegt eða ónothæft í þessum dæmum. Hvað sem því líður sýnist mér ljóst að orðið móment sé komið inn í málið og verði „tæplega sent á haf út úr þessu“ þrátt fyrir erlendan uppruna – ekki frekar en augnablik á sínum tíma.