Þel, þelhvítt og þeldökkt fólk

Á síðu Facebookvinar lenti ég í umræðu um orðið þelhvítur sem er mjög sjaldgæft en kemur fyrir í Vefaranum mikla frá Kasmír eftir Halldór Laxness – „persóna úr goðsögn, sem hefði alið aldur sinn með þelhvítum skógardilkum“. Einhverjum fannst vera innri mótsögn í því orði þar eð þel merkti 'myrkur' eins og í orðinu næturþel. En það er misskilningur – orðið næturþel merkir vissulega 'næturtími' en þel vísar þar ekki til myrkurs. Sumum fannst hins vegar eðlilegt að þel tengdist hvítur gegnum ull sauðfjár sem skiptist í tog og þel sem er 'mjúk ull kinda undir grófari ull, toginu' – þel væri því mýksti og hvítasti hluti ullarinnar. En ull svartra og mórauðra sauðkinda skiptist líka í tog og þel þannig að því fer fjarri að þel sé alltaf hvítt.

Það er samt ekki nýtt að líta svo á að þel vísi til ullar í orðum eins og þelhvítur. Fyrir 60 árum skrifaði Hannes á horninu (Vilhjálmur S. Vilhjálmsson) í Alþýðublaðið um „þetta sífellda þelstagl í útvarpi og blöðum“ og virðist hafa verið í deilu við fréttamenn Ríkisútvarpsins um orðið þeldökkur: „En að kalla yður þelhvíta er í rauninni svo fávíslegt, óþarft og alrangt að engu tali tekur, því að ég ætla, að ekkert hvítt þel þekji húð yðar, sem réttlæti að þér séuð kallaðir þelhvítir menn. – Þá er hitt líka jafn fávíslegt, óþarft og alrangt að kalla svarta menn þeldökka, því að þeir eru örugglega ekkert loðnari um kroppinn en þér, og þá heldur ekkert dökkt þel, sem þekur húð þeirra, er réttlætir, að þeir séu kallaðir þeldökkir menn frekar en þér þelhvítir.“

Orðið þel kemur fyrir þegar í fornu máli í merkingunni 'grunnur, undirlag'. Í Adónías sögu frá 15. öld segir: „Umkringis á skildinum var ein spöng sterk með járn en þelið á skildinum var svart sem hrafn.“ Þarna er þelið eiginlega yfirborð skjaldarins sem er undirlag undir ýmiss konar skraut. Auk þess getur þel merkt 'hugarfar, hugur til e-s', einkum í samsetningum eins og vinarþel, bróðurþel, þelgóður, þelhlýr o.fl. en einnig sem sjálfstætt orð, eins og í „Þel getur breyst við atorð eitt“ í „Einræðum Starkaðar“ eftir Einar Benediktsson. Einnig er þel 'himna í kviðarholi og um ýmis lífæri'. Vel er hægt að sjá tengsl með þessum merkingum. Í ullinni er þel undirlag togsins, himnan er yfirborð eða viðmót, og hugarfarið er undirlag viðmóts.

En langalgengasta samsetningin með þel er þeldökkur. Það orð kemur fyrst fyrir í Alþingisbókum Íslands á 17. öld: „skarpleitur, þeldökkur“. Næst kemur orðið fyrir í Sunnanpóstinum 1838: „Balfúr var frídur, þeldøckur, vel vaxinn madur“, og síðan ekki fyrr en í Draupni 1892: „Maður nokkur roskinn, þeldökkur og brúnaþungur, grúfði yfir þeim.“ Framan af er ljóst að orðið merkir 'með dökka húð' en ekki 'svartur maður'. Það sést t.d. greinilega á dæmum eins og „Blaðamaðurinn snýr sér að Torvö, sem er þeldökkur af sólbruna“ í Alþýðublaðinu 1931, „Aftast í salnum sat mjög þeldökkur maður“ í Norðurljósinu 1932, og „Þú ert auðvitað nokkuð þeldökkur – en það getur stafað af sólbruna og vindi“ í Heimskringlu 1941.

Undir miðja 20. öld fjölgar dæmum um þeldökkur mjög – þá er farið að nota orðið í merkingunni 'svartur maður' sem verður fljótt aðalmerking orðsins og er enn. Sú er merkingin væntanlega í Speglinum 1949: „Joe Louis, hinn heimsfrægi, þeldökki hnefaleikameistari.“ Í Heima er bezt 1951 segir: „Ekki var hann samt Abbyssiníumaður, því hann var hvítur, en Abbyssiníumenn eru þeldökkir.“ Í Vísi 1952 segir „Í ýmsum borgum Suður-Afríku voru í gær haldnir fundir til þess að mótmæla setningu laga, sem skerða réttindi þeldökkra manna.“ Í Þjóðviljanum 1952 segir: „Um fjórir fimmtu hlutar Suður-Afríkubúa eru af þeldökkum kynþáttum en hvítir menn stjórna landinu einir og þrengja kosti hins þeldökka fólks í hvívetna.“

Í nútímamáli er þeldökkur nánast alltaf notað sem flokkun fremur en lýsing og þá sjaldan þelhvítur er notað gegnir sama máli um það. Í Þjóðviljanum 1956 segir: „Þeldökkir menn þar í borg hafa nú í rúmt ár krafizt réttar síns að mega ferðast í strætisvögnum bæjarins án þess að verða að lúta fyrir þelhvítum mönnum.“ Á seinni árum virðist Þorvaldur Gylfason vera sá eini sem hefur notað þelhvítur á prenti og þau þrjú dæmi sem eru um orðið í Risamálheildinni eru öll frá honum, t.d. í Morgunblaðinu 2000 þar sem hann talar um að „halda friðinn og vernda blökkumenn gegn þelhvítum þrælahöldurum frá lokum borgarastyrjaldarinnar 1865.“ Þótt þelhvítur hafi ekki breiðst út eða komist í orðabækur er þetta eðlilegt orð í þessari merkingu.