Setningafræðileg nýjung: Boðháttur í aukasetningum
Sagnir í boðhætti lúta tveimur setningafræðilegum takmörkunum sem greina þær frá sögnum í öðrum persónuháttum (framsöguhætti og viðtengingarhætti): Í fyrsta lagi standa þær jafnan fremst í setningu – við segjum farðu heim! og vertu rólegur! en ekki *þú far heim og *þú ver rólegur eða *strax farðu (/ far þú) heim og *nú vertu (/ ver þú) rólegur. Í öðru lagi standa boðháttarsagnir eingöngu í aðalsetningum, ekki í aukasetningum – við segjum gerðu svo vel að fá þér að borða en ekki *gerðu svo vel að fáðu þér að borða, og ég skipa þér að fara heim en ekki *ég skipa þér að farðu heim. Þetta gildir í nútímamáli en í fornu máli eru hins vegar dæmi um að boðháttarsögn sé ekki fremst í aðalsetningu, og að boðháttur sé hafður í aukasetningu.
En í seinni tíð er hins vegar orðið algengt að boðháttarsagnir séu notaðar í ákveðnum gerðum aukasetninga. Þetta eru dæmi eins og „Þannig að vertu bara ánægð með sjálfa þig“ í Orðlaus 2002, „Það sem ég vil segja við þig er að láttu þær ekki rugla þig í ríminu“ á Bland.is 2002, „Eins ráðið sem ég get gefið er að farðu með þær í hreinsun“ á Bland.is 2003, „Það er spennandi tími framundan þannig að njóttu þess sem koma skal“ í Orðlaus 2006, „Kona, líttu þér nær, þú sast í hrunstjórninni, en hafðir ekki heilindi til þess að segja af þér – svo að talaðu varlega“ í Morgunblaðinu 2012, „Þannig að farðu nú að skrifa niður sigrana“ í Fréttablaðinu 2017, „Þeir rukka fyrir bílinn og bensínið svo að notaðu hann“ á vef Ríkisútvarpsins 2018 – og mörg fleiri.
Í öllum þessum dæmum væri hægt að setja þú skalt + nafnhátt í staðinn fyrir boðháttarsögnina – þú skalt bara koma, þú skalt tala varlega, þú skalt nota hann o.s.frv. Aukasetningin sem inniheldur boðháttarsögnina er langoftast tengd við aðalsetninguna með aukatengingunum svo að og einkum þannig að þótt öðrum tengingum bregði fyrir. Á tímarit.is má sjá að dæmum um að þannig að þú skalt og einkum svo að þú skalt hefur fækkað mikið undanfarna áratugi og er líklegt að boðháttarsagnir hafi að einhverju leyti komið í staðinn. Einstöku eldri dæmi má einnig finna um boðhátt í aukasetningum tengdum með því að, t.d. „Því að líttu á!“ í Dagfara 1906, „Því að taktu eftir“ í Sunnudagsblaði Tímans 1964, og „Því að vertu viss“ í DV 1985.
En annars fer þessi setningagerð að sjást á prenti rétt fyrir aldamót – elsta dæmi sem ég fann var „Ég hræðist engan þannig að komdu bara“ í DV 1996 og dæmum á tímarit.is fór svo smátt og smátt fjölgandi upp úr aldamótum og einkum á síðasta áratug. Setningagerðina er þó enn sem komið er aðallega að finna í óformlegu málsniði – sennilega eru innan við hundrað dæmi um hana í öðrum textum Risamálheildarinnar en þeim sem koma af samfélagsmiðlum, en þar hefur hún verið mjög algeng síðan um aldamót. Það er sem sé greinilegt að þarna er ný setningagerð komin inn í málið og þótt henni fylgi óhefðbundin notkun boðháttar sé ég enga ástæðu til að amast við henni – þetta eru engin málspjöll.