Hvað merkir útséð um?
Í gær var hér spurt um merkingu setningarinnar „enda útséð að Bandaríkin myndu beita neitunarvaldi“ sem kom fyrir í fréttum Ríkisútvarpsins í gærkvöldi. Málið snýst um orðið útséð sem lítur út eins og hvorugkyn lýsingarháttar þátíðar af sögninni útsjá sem að vísu er til en í annarri merkingu. Orðið er því greint sem lýsingarorð (sem aðeins kemur fyrir í hvorugkyni) bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók en í hvorugri er það skýrt sérstaklega heldur eingöngu í sambandinu það er útséð um að, sem skýrt er 'það eru engar líkur lengur á að' í þeirri síðarnefndu. Í Málfarsbankanum segir: „Setningin það er útséð um eitthvað merkir: eitthvað gerist ekki.“ En þessi merkingarskýring á augljóslega ekki við umrætt dæmi.
Málið er nefnilega flóknara en þetta. Elsta dæmi um útséð á tímarit.is er í Skírni 1832: „þókti nú útséð um það, að eigi mundi liðsvon framar frá Líthauen.“ Samhengið sýnir að merkingin er 'þótti nú orðið ljóst að ekki kæmi liðsauki frá Litháen'. Þarna er athyglisvert að neitunin eigi er í setningunni sem útséð tekur með sér, en miðað við skýringu orðabóka og Málfarsbankans er henni í raun ofaukið vegna þess að orðið útséð felur hana í sér. Fjölda hliðstæðra dæma með neitun má finna á 19. öld. Í Þjóðólfi 1868 segir t.d.: „Og fyrst að útséð er um, að Prófessorinn getur ekki orðið við þessari ósk Reykvíkinga.“ Í Fjallkonunni 1889 segir: „Sumum féll svo allr ketill í eld, að þeir töldu útséð um það, að ekkert gagn gæti orðið að þessu þingi.“
Hér hlýtur útséð að merkja 'orðið ljóst, komið í ljós' og sama máli gegnir um ýmis elstu dæmi um orðið án eftirfarandi neitunar. Í Skírni 1837 segir: „Þetta fréttaár hefir orðið ríkt af viðburðum í þjóðlífi Portúgísa, þó ekki sé ennþá útséð hvaða enda þeir fá.“ Í Þjóðólfi 1868 segir: „Þegar nú var útséð um, að allir væri komnir sem viðstaddir vildi vera.“ En einnig eru ýmis dæmi um að notkun útséð rími við lýsingu orðabókanna. Í Skírni 1842 segir: „sögðu og að útséð væri um allt prentfrelsi, ef jafningjar oftar leifði sér að dæma í prentfrelsis málum.“ Í Norðlingi 1877 segir: „Útséð þykir um að aðrir Norðurálfubúar bendlist við þennan ófrið, nema ef vera skyldi Serbar.“ Í Skuld 1879 segir: „Það er nú útséð um það, að hér komi sumar í ár.“
Eins og áður segir er neitun í raun innifalin í þeirri merkingu útséð sem orðabækur gefa, 'engar líkur lengur á að'. Setninguna það er útséð um að þetta takist má m.a. umorða sem það er vonlaust að þetta takist, það er óhugsandi að þetta takist, það er útilokað að þetta takist og í öllum þeim dæmum er einhvers konar neikvæða merkingu að finna í orðinu sem kemur í stað útséð – -laust, ó- og -lokað. En í útséð felur hvorugur orðhlutinn í sér neikvæða merkingu og þess vegna er ekkert undarlegt að margir málnotendur skynji ekki neitunina í merkingu orðsins og noti það fremur í hlutlausri merkingu – skilji það var útséð (um) að þetta tækist fremur sem 'það var komið í ljós að þetta tækist' en 'það var orðið útilokað að þetta tækist'.
Það verður því ekki betur séð en útséð (um) hafi haft tvær merkingar alveg frá upphafi, báðar mjög algengar – annars vegar þá sem orðabækur segja, 'engar líkur (lengur) á', og hins vegar 'orðið ljóst, komið í ljós'. Síðarnefnda merkingin á t.d. augljóslega við í þeim fjölmörgu dæmum þar sem spurnarsetning kemur á eftir, s.s. „Það er enn þá ekki útséð um, hvernig málinu lýkur milli Englendinga og Rússa“ í Austra 1885 og „Enn er ekki útséð um hvort tekist hefur að stöðva lekann endanlega“ í Fréttablaðinu 2010. Þar eð merkingarnar virðast álíka gamlar, eiga sér órofa sögu, og hafa báðar verið algengar allan tímann sé ég engar forsendur fyrir því að taka aðra fram yfir hina. Dæmið sem vísað var til í upphafi hlýtur því að teljast rétt.