Ný samtenging: útaf

Í umræðu um samtenginguna þannig að og afbrigðið þannig hér í dag var nefnt að útaf væri orðin algeng samtenging í máli unglinga – útaf ég gerði það. Þetta á væntanlega ættir að rekja til tengingarinnar út af því að sem er í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 en er þó ekki með í lista Björns Guðfinnssonar um orsakartengingar í Íslenzkri málfræði hans – þar eru taldar af því að, því að, fyrir því að, með því að, sökum þess að, sakir þess að, úr því að, vegna þess að, þar eð, þar sem, fyrst. Ég hef á tilfinningunni, án þess að geta vísað í heimildir því til stuðnings, að út af því að hafi ekki þótt sérlega virðuleg tenging, hvort sem það er ástæða eða afleiðing þess að Björn hafði hana ekki með í lista sínum um „allar helztu samtengingar“ í málinu.

Elsta dæmi um út af því að á tímarit.is er í Norðurfara 1849: „Um þetta leiti var líka mikill órói í Berlinni út af því að Wrangel […] hafði gefið út ávarp til þjóðarinnar.“ Allmörg dæmi eru um tenginguna frá næstu áratugum en undir lok aldarinnar fer að bóla á afbrigðinu út af að, án því – fyrst í vesturíslensku blöðunum. Elsta dæmið er í Lögbergi 1890: „Hann sagði nýlega við blaðamann einn, að mesta ófriðarhættan væri innifalin í gremju Frakka út af að hafa misst fylki þau, sem þeir urðu að fá Þjóðverjum í hendur 1871.“ Eftir aldamótin fer þetta að sjást í blöðum á Íslandi – „Eg vissi að ferðin var ákvörðuð og var með sjálfum mér hryggur út af að missa nú álftirnar“ segir í Dýravininum 2001. Slæðingur af dæmum er um út af að nær alla 20. öldina.

Þetta afbrigði virðist þó horfið úr málinu – ég hef ekki rekist á yngri dæmi um það en frá 1990. En einnig bregður fyrir afbrigðinu út af því, án . Sama gerist í öðrum orsakartengingum sem innihalda því aðaf því að, því að, fyrir því að, úr því að og með því að. Elsta dæmi sem ég finn um þetta er í Nýjum kvöldvökum 1909: „Hvað sagði svo maðurinn þinn, þegar þú félst í öngvit út af því hann neitaði um kjólefnið.“ Fáein önnur dæmi frá 20. öld má finna en það er þó einkum á síðustu tveimur áratugum sem þetta afbrigði verður algengt – einkum á samfélagsmiðlum, en þó er einnig töluvert af dæmum í formlegra málsniði, s.s. „En það er líka út af því hann hefur skipt út einni blekkingu fyrir aðra“ í Morgunblaðinu 2009.

En afbrigðið sem nefnt var í upphafi, útaf ­– án bæði því og og langoftast skrifað í einu orði – er nýlegt. Sárafá dæmi eru um það úr prentmiðlum – það elsta sem ég rakst á var í Feyki 2014: „Villi Árnason er í uppáhaldi en það er nú bara útaf ég þekki hann og treysti!“ Annað dæmi er úr Munin 2016: „Og ég var ekki böstaður … og þetta var versta nótt lífs míns útaf ég þurfti svo mikið að pissa.“ Hins vegar eru fjölmörg dæmi á samfélagsmiðlum alveg frá aldamótum þannig að þetta gæti vel verið talsvert eldra í talmáli. Ritháttarafbrigðið útað var einnig nefnt í umræðum um þetta hér í hópnum – í Risamálheildinni er slæðingur af dæmum um það í þessu hlutverki. Þetta afbrigði er mjög eðlilegt í ljósi lítils framburðarmunar á f (v) og ð í enda orðs.

Samtengingin út af því að er fjögur orð, lengri en nokkur önnur samtenging málsins. Það er því engin furða að tilhneiging sé til að stytta hana og hér hafa verið nefnd afbrigðin út af að, út af því og útaf (út af). Trúlegt er að síðastnefnda afbrigðið hafi ekki orðið til beint úr út af því að heldur hafi annað hvort hinna verið millistig – hugsanlega frekar út af að vegna þess að það virðist hverfa úr málinu um svipað leyti og útaf kemur upp. Frekari rannsóknir þyrfti þó til að skera úr þessu og kannski er það ekki hægt. Hvað sem því líður sé ég enga ástæðu til að amast við útaf sem tengingu. Ýmsar nýjar samtengingar hafa orðið til frá fornu máli og þetta er stutt og lipurt orð sem þegar hefur fest sig í sessi í þessu hlutverki. Fögnum því að málið er lifandi!