Hættum að rakka ungt fólk niður vegna málfars

Þessi hópur var upphaflega stofnaður til að andæfa neikvæðri umræðu um íslenskuna á samfélagsmiðlum og í athugasemdadálkum vefmiðla. Þar veður uppi hneykslunarumræða sem ekki verður séð að hafi annan tilgang en þann að gera lítið úr fólki sem verður eitthvað á í máli – að mati þeirra sem skrifa. Iðulega kemur reyndar í ljós, þegar að er gáð, að um er að ræða einhvers konar vanþekkingu, misskilning eða rangtúlkun og málfarið sem hneykslast er á er gott og gilt. Einstaklega gott – eða vont – dæmi um þetta kom upp í vikunni þegar mbl.is birti frétt um kvikuna „sem spúst hefur upp á yfirborðið í eldgosinu við Sundhnúkagíga“. Þá mátti lesa á Facebook-síðu mbl.is og í hópunum Málvöndunarþátturinn og Skemmtileg íslensk orð:

„Unga fólkið er að meika það á Mogganum“; „Þvílíkt orðalag er þetta háskólamenntuð manneskja sem hefur slíkt orðalag“; „Nei nú er mér allri lokið, sá eða sú sem skrifaði þetta hefði ekki átt að komast upp úr fyrsta bekk“; „Úr hvaða skóla útskrifaðist hann?“; „Þetta lið er ekki talandi“; „Er ekki hægt að fá inn á fjölmiðla talandi fullorðið fólk. Eru þetta illa talandi/skrifandi krakkar í aukavinnu með skóla“; „Fara blaðamenn ekki i skóla?; algjörlega ómenntaðir dregnir beint upp úr fjóshaug“; „Eru blaðamenn ekki búnir að eyða meirihluta æfinnar í skóla en rita svona bull í opinberan fjölmiðil??“; „á hverju er þetta lið????“; „Þau eru 3gja að verða 5“; „Hvernig er hægt að birta svona frétt á "barnamáli"?“; o.s.frv.

Þetta er bara brot af athugasemdum sem snúa beinlínis að þeim sem skrifuðu fréttina – við það bætast fjölmargar athugasemdir eins og „Orðið Spúst er víst til líka, en engu að síður orðskrípi“, „Vill Mogginn láta svona þvælu sjást?“, „Er þetta kannski eitt kynleysis orðið?“ og margar í sama dúr. Það kom fyrir ekki þótt inn í þessa þræði væri ótal sinnum settur hlekkur í Beygingarlýsingu íslensk nútímamáls þar sem myndin spúst er gefin upp sem sagnbót (lýsingarháttur þátíðar) í miðmynd af sögninni spúa. Vissulega er þetta sjaldgæf mynd, og fullkomlega eðlilegt að málnotendur átti sig ekki á henni. En það er ekki eðlilegt að gefa sér að um sé að ræða bernsku, heimsku, fákunnáttu eða menntunarskort þeirra sem skrifuðu fréttina.

Umræða af þessu tagi er því miður ekki einsdæmi þótt þetta tilvik sé í svæsnara lagi. Mér sýnist athugasemdir helst koma frá fólki sem er komið yfir miðjan aldur eins og ég, en við þurfum að hafa í huga að íslenskan hefur breyst heilmikið frá því að við vorum að tileinka okkur hana og það er umhugsunarefni hvers vegna fólki finnst eðlilegt og sjálfsagt að rakka ungt fólk niður vegna málfars. Um leið er fólk að hreykja sjálfu sér og taka undir með faríseanum sem sagði: „Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.“ Það þarf bara að skipta um örfá orð: „Guð, ég þakka þér að ég tala ekki eins og þetta fólk, unglingar, fáfróðir, ómenntaðir, eða þá eins og þessi fréttabörn.“

Íslenskan hefur alltaf verið að breytast, sem betur fer – lifandi mál hlýtur að breytast í takt við þróun þjóðfélagsins og þarfir málsamfélagsins. Það er líka alveg eðlilegt að okkur komi sumar breytingar undarlega fyrir sjónir og fellum okkur ekki við þær í fyrstu. En við megum fyrir alla muni ekki ráðast á unga fólkið og rakka niður mál þess. Við þurfum að fá unga fólkið í lið með okkur vegna þess að það verður að taka við íslenskunni. Það er ekki öðrum til að dreifa. En umræða af þessu tagi, þar sem sífellt er verið að segja unga fólkinu að það kunni ekki íslensku, er fremur til þess fallin að gera það fráhverft íslenskunni en til að vekja áhuga þess á viðgangi og framtíð málsins. Unga fólkið verður að fá á tilfinninguna að það eigi hlut í íslenskunni.