„Fréttabörn“
Fyrir jól spannst heilmikil umræða hér og víðar af orði sem kom mörgum ókunnuglega fyrir sjónir í frétt á mbl.is. Í þeirri umræðu var iðulega vísað til meintrar æsku fréttaskrifara – sagt t.d. „Þau eru 3gja að verða 5“, „Hvernig er hægt að birta svona frétt á „barnamáli““, „Er ekki hægt að fá inn á fjölmiðla talandi fullorðið fólk. Eru þetta illa talandi/skrifandi krakkar í aukavinnu með skóla“ og margt fleira í þessum dúr. Þetta leiðir hugann að orðinu fréttabörn sem var töluvert notað sem háðs- eða skammaryrði fyrir fáum árum. Orðið kemur fyrst fyrir í pistli Svarthöfða í DV 1982: „Orðið „kanaútvarp“ er nefnilega engin tilviljun, heldur húsorð hjá þeim fréttabörnum, sem ríkisfjölmiðlarnir sækjast svo ákaft eftir að hafa í þjónustu sinni.“
En það var ekki fyrr en 30 árum síðar sem orðið fór á flug, þó einkum í skrifum tveggja fjölmiðlarýna – Eiðs Guðnasonar og Jónasar Kristjánssonar. Sá síðarnefndi sagði að þetta væri „slagorð, sem við notum nokkrir gamlingjar“ og skilgreindi það svo: „Orðið fréttabarn táknar mann, sem misst hefur af landafræði og sögu. Sem hefur tæpa menntun í bókmenntum og erlendum tungumálum. Sem hefur fylgst minna með stjórnmálum og alþjóðamálum en tíðkaðist í þá gömlu, góðu daga. Sumpart afleiðing breyttra skóla og innreiðar nýrra áhugamála. Við bætist skortur á prófarkalestri. Útkoman er röng málfræði, vondur stíll, misþyrming máltækja og vanþekking á fréttasögu. Samanlagður vandinn heitir fréttabarn.“
Nokkur dæmi eru um orðið á Málefnin.com 2011, en blómatími þess hófst árið 2012 – það ár og næstu ár þar á eftir nota þeir Eiður og Jónas orðið margoft í vandlætingarskrifum á vefsíðum sínum, auk þess sem því bregður fyrir í svipuðum skrifum annarra, svo sem Baldurs Hafstað í Morgunblaðinu. En stundum var þessu líka andmælt, eins og í grein Stígs Helgasonar í Fréttablaðinu 2013: „Það er eins og þessir höfðingjar haldi að vond blaðamennska hafi fyrst orðið til um það leyti sem þeir hættu sjálfir afskiptum af henni. Ég get fullvissað þá um að svo er ekki. Eins og er oft heilmikið til í aðfinnslum þeirra þá hefðu þær líklega mun meiri áhrif ef þær væru ekki svona yfirlætisfullar og dónalegar. Allt fjas um „fréttabörn“ er til óþurftar.“
Hugarfarið að baki orðinu fréttabörn er greinilega grasserandi enn en helstu notendur þess eru báðir látnir og því sést orðið sjálft sjaldnar en áður. Sem betur fer – þetta er skelfilega neikvætt, fordómafullt og niðurlægjandi orð, bæði gagnvart ungu fjölmiðlafólki og börnum. Það má taka heilshugar undir orð Guðmundar Andra Thorssonar í Fréttablaðinu 2015: „Það er ósiður að nota orð sem tengjast börnum og hinu barnalega í neikvæðri merkingu eða sem skammaryrði. Þar eimir eftir af gamalli íslenskri barna-andúð. Það sýnir leiðinlegan þankagang og skilningsleysi á því mikla dýrmæti sem felst einmitt í tærum og frjóum barnshuganum og hinu barnslega viðhorfi. Ætli orðið „fréttabörn“ sé ekki ljótasta orð íslenskrar tungu?“