Hann var slaufaður

Sögnin slaufa er tökuorð eins og hljóðafar hennar sýnir – í erfðaorðum er aldrei borið fram óraddað f milli sérhljóða þótt svo sé ritað, heldur raddað v eins og í gaufa, paufast o.s.frv. Reyndar er einnig til myndin slauffa sem fellur betur að íslensku hljóðafari því að langt ff kemur fyrir í allmörgum orðum í málinu – „Papa Roach eru hálfnaðir með næstu plötu og eru við það að slauffa túrnum sínum“ segir í Morgunblaðinu 2003. Orðið er komið af dönsku sögninni sløjfe sem merkir 'taka burt (draga, rífa til grunna)' og er aftur komin af schleifen í þýsku. Elsta dæmi sem ég finn um orðið í íslensku er í Heimskringlu 1895: „útlit er fyrir að honum […] hafi […] þótt það úrræðabest, að „slaufa“ það að innfæra þann fundargerning í gjörðabók héraðsins.“

Sögnin er skýrð 'hætta við (e-ð), sleppa (e-u)' í Íslenskri nútímamálsorðabók en hefur til skamms tíma verið fremur sjaldgæf á prenti enda merkt „óformlegt“ í orðabókum. En á seinustu árum hefur hún fengið nýja merkingu og er nú aðallega notuð um að sniðganga fólk á einhvern hátt, í orði eða verki, vegna einhvers sem það hefur sagt eða gert og tengist oft kynferðislegri áreitni, rasisma eða einhverju slíku. Í þessari notkun samsvarar orðið enska orðinu cancel en ein merking þess er 'to completely reject and stop supporting someone, especially because they have said something that offends you' eða 'að hafna einhverjum algerlega og hætta stuðningi við þau, einkum vegna þess að þau hafa sagt eitthvað sem hneykslar þig'.

Í dag var hér spurt um notkun myndarinnar slaufaður sem er að forminu til lýsingarháttur þátíðar af slaufa. Fyrirspyrjandi hafði heyrt sagt hann var slaufaður þar sem búast mætti við honum var slaufað vegna þess að sögnin stjórnar þágufalli á andlagi sínu og germyndarandlag í þágufalli heldur yfirleitt falli sínu þótt það sé gert að frumlagi í þolmynd, t.d. (einhver) hjálpaði honum honum var hjálpað, ekki *hann var hjálpaður. En þessi fallbreyting er þó ekki einsdæmi. Það er nefnilega algengt að lýsingarhátturinn fái setningafræðilegt hlutverk lýsingarorðs og þá er ekki um að ræða þolmynd, lýsingu á athöfn, heldur germynd, lýsingu á ástandi. Honum var slaufað er þolmynd, hann var slaufaður germynd.

Um þetta má nefna fjölda dæma sem þykja góð og gild og eiga sér langa sögu í málinu, svo sem hliðinu var lokað sem lýsir athöfn og hliðið var lokað sem lýsir ástandi. Nærtækast er þó að benda á sögnina útskúfa sem er merkingarlega mjög lík slaufa en lýsingarháttur hennar hefur lengi getað gegnt hlutverki lýsingarorðs. Í Þjóðviljanum 1904 segir: „hengdi á hann danskan stórkross, um leið og honum var útskúfað úr þjónustu landsins“ en í sama blaði 1905 segir: „Það er hjá Hómer som nú er útskúfaður eins og allt annað sem öll Evrópu-menntun hvílir á.“ Það verður því ekki séð að neitt í merkingu sagnarinnar slaufa ætti að koma í veg fyrir setningar eins og hann var slaufaður – við erum bara ekki vön þeim enn sem komið er.

Hin nýja notkun slaufa sem vísað var til hér að framan er nefnilega ekki nema tveggja eða þriggja ára gömul, og það er ekki fyrr en með henni sem þörf skapast fyrir lýsingarorð af sögninni – elstu dæmi sem ég finn um slaufaður eru frá 2021, svo sem „Svo ertu slaufaður ef þú ert á móti skoðunum fréttastofu sem á ekki að hafa skoðun heldur segja fréttir“ í Fréttablaðinu það ár. Vissulega má halda því fram að slaufaður sé tilkomið fyrir ensk áhrif, sé þýðing á cancelled, en þá er litið fram hjá því að hin nýja merking sagnarinnar kallar á þessa mynd. Eins og áður segir er fjöldi hliðstæðra dæma í málinu við hann var slaufaður og engin ástæða til að amast við því – við þurfum bara að venjast því eins og öðrum nýjungum.