Að ráðleggja frá

Í gær var hér spurt um sambandið ráðleggja frá sem fyrirspyrjandi hafði rekist á og komið ókunnuglega fyrir sjónir. Vissulega er oftast talað um að ráðleggja einhverjum eitthvað en ráða einhverjum frá einhverju, en í ráðleggja einhverjum frá einhverju lítur út fyrir að þessu tvennu sé blandað saman. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er ráðleggja skýrt 'segja (e-m) hvað best sé að gera, gefa (e-m) ráð' en ráða (í viðeigandi merkingu) skýrt 'gefa (e-m) ráð, ráðleggingu, heilræði'. Grunnmerking sagnanna er því u.þ.b. sú sama, en munurinn felst í því að hefð er fyrir sambandinu ráða frá í neitandi merkingu – það er að finna undir ráða með dæminu hann ræður mér frá að fara í langa sjóferð. Ekkert slíkt samband er að finna undir ráðleggja.

Sagnirnar ráða og ráðleggja eru báðar gamlar í málinu – koma fyrir þegar í fornu máli, og sambandið ráða frá í nútímamerkingu er a.m.k. síðan á 19. öld. Elstu dæmi sem ég hef fundið um ráðleggja frá eru aftur á móti frá frá því upp úr 1940. Í Lesbók Morgunblaðsins 1941 segir: „Allir eru þessir spilabankastjórar efnaðir menn og allir ráðlögðu þeir vinum sínum eindregið frá að spila.“ Í ræðu á Alþingi 1942 sagði Hermann Jónasson: „Ég ætlaði eitt sinn að gróðursetja trjáplöntur í röðum, en var stranglega ráðlagt frá því, með því að þær þrifust þá ekki.“ Í Morgunblaðinu 1943 segir: „Mönnum hefur verið ráðlagt frá því að heimsækja Gandhi.“ Í Ljósberanum 1947 segir: „Hann ráðlagði þeim eindregið frá því að fara inn í veitingasalinn.“

Fáein dæmi má finna um ráðleggja frá í blöðum og tímaritum frá næstu áratugum, en meðan aðeins eitt og eitt dæmi um sambandið er á stangli má vissulega halda því fram að um mistök eða villu sé að ræða – höfundur hafi einfaldlega ruglast og þetta sé í raun ekki mál neins. En dæmum fer fjölgandi eftir 1970 og einkum á síðustu árum. Í Risamálheildinni eru um 670 dæmi um sambandið, meginhluti þeirra frá síðasta áratug. Meira en helmingur þeirra er úr formlegu máli en hlutfallið á samfélagsmiðlum er þó mun hærra – þar eru um 320 dæmi en dæmin um ráða frá um 510. Það er því ljóst að sambandið ráðleggja frá er í mikilli sókn og engin leið að afgreiða það sem mistök eða villu lengur heldur er þetta orðið eðlilegt mál margra.

Þótt sambandið ráðleggja frá sé væntanlega tilkomið fyrir blöndun sambanda (eða rugling, ef fólk vill orða það þannig) á það sér meira en 80 ára sögu í málinu og er orðið það algengt að enginn vafi er á því að það er rétt mál samkvæmt venjulegum viðmiðum. Auðvitað er samt ljóst að hefðin fyrir ráða frá er miklu eldri og ríkari og ekkert óeðlilegt að fólk sem er alið upp við það samband vilji halda í það. Samt má hafa í huga að kannski eru góðar og gildar ástæður fyrir uppkomu sambandsins ráðleggja frá. Sögnin ráðleggja hefur nefnilega eina og ótvíræða merkingu en ráða hefur fjölmargar og fjölbreyttar merkingar og því má segja að ráðleggja frá sé í vissum skilningi gagnsærra og skýrara samband en ráða frá.