Andvaraleysi gagnvart ensku

Mér var bent á síðu á Facebook sem heitir East Iceland Food Coop og er kynnt þannig: „We are importing fresh organic produce directly to East Iceland, and distribute all over the country.“ Þarna getur fólk sem sé pantað grænmeti og ávexti og fengið afhent víða um land, og þetta virðist vera mjög vinsæl þjónusta. Ég finn engar upplýsingar um aðstandendur síðunnar en vegna þess að hún er eingöngu á ensku finnst mér líklegt að það sé fólk sem ekki er íslenskumælandi. Það er a.m.k. á gráu svæði að hafa slíka síðu eingöngu á ensku – þetta hlýtur að teljast auglýsingasíða og í Lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu segir í 6. grein: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“

Það sem mér fannst samt umhugsunarverðast er að langflestar pantanir eru líka á ensku, enda þótt það séu Íslendingar sem eru að panta. Stöku sinnum bregður þó fyrir pöntunum á íslensku og þeim er svarað (á ensku) þannig að ljóst er að þau sem sjá um síðuna skilja íslensku. Hvernig stendur á því að við látum bjóða okkur það að gera pantanir á ensku, á síðu sem gefur sig út fyrir að vera íslensk og dreifir vörum á Íslandi? Af hverju finnst okkur ekki sjálfsagt að nota íslensku? Þetta er einstaklega gott – eða öllu heldur vont – dæmi um meðvitundarleysi okkar gagnvart enskunni í umhverfinu. Við getum þusað um enskunotkun unglinga og fólks í þjónustustörfum en lúmskustu áhrif enskunnar felast í andvaraleysi okkar sjálfra.