Að fresta flugum
Hér voru settar inn með stuttu millibili tvær færslur þar sem verið var að amast við setningum eins og öllum flugum hefur verið frestað. Þessum færslum var hent út vegna neikvæðs anda í þeim og útúrsnúnings eins og „Hvenær breyttist flug í flugur“? – en það þýðir ekki að þetta sé ekki verðugt viðfangsefni. Það hefur reyndar verið rætt hér nokkrum sinnum áður en aðeins í framhjáhlaupi og nú skal bætt úr því. Orðið flug merkir 'það að fljúga' og í Íslenskri nútímamálsorðabók eru tekin dæmin hún athugaði flug fuglanna og öllu flugi var aflýst vegna vonskuveðurs um þá merkingu. En auk þess merkir orðið 'einstök ferð flugvélar' og það er sú merking sem iðulega er amast við og því stundum haldið fram að sé tilkomin fyrir ensk áhrif.
En þessi merking er meira en aldargömul í málinu – meira að segja eldri en saga flugs á Íslandi. Elsta dæmi um hana er í Frækorni 1909: „Við flugin í Reims hefir Latham fengið uppreisn fyrir það hve óheppinn hann var með tilraunir sínar að fljúga yfir sundið.“ Í Vísi 1911 segir: „er flugin byrjuðu voru þar komnar 600 þús. áhorfenda.“ Í Morgunblaðinu 1919 er fyrirsögnin „Flugin yfir Atlanzhaf.“ Í sama blaði sama ár segir: „Flugin tókust bæði ágætlega.“ Í Sunnudagsblaðinu 1926 segir: „Skulu nú hér talin nokkur merkustu flugin.“ Í Morgunblaðinu 1928 segir: „þessar ferðir eru frekar skoðaðar sem skemtiferðir, á sama hátt og flugin yfir bæinn og nágrennið.“ Í sama blaði sama ár er fyrirsögnin „Hassel-flugin“. Svo mætti lengi telja.
Í öllum þessum dæmum er ljóst að verið er að vísa til tiltekinna ferða flugvéla og þess vegna er fleirtalan eðlileg. Það má vel vera að einhverjum finnist samfall orðanna flug og fluga í þágufalli fleirtölu truflandi, en slíkt samfall beygingarmynda er fjarri því að vera einsdæmi og vitanlega eru engar líkur á því að dæmi eins og öllum flugum aflýst misskiljist – það er orðhengilsháttur og útúrsnúningur að halda því fram. Vissulega er þarna líka hægt að nota eintöluna, öllu flugi aflýst – en hvað á að gera ef aflýsingin er ekki alger, í dæmum eins og „Þá var um 400 flugum aflýst til og frá landinu“ í Fréttablaðinu 2022? Oft er sagt að í slíkum tilvikum eigi að nota orðið flugferð í staðinn – en er það örugglega hægt?
Orðið flugferð merkir 'ferðalag með flugvél' og á ekki endilega við í þessu samhengi, þar sem merkingin er frekar 'ferð flugvélar'. Vissulega má segja að 400 flugferðum aflýst yrði fremur skilið sem '400 ferðum flugvéla' en 'ferðum 400 farþega' en stundum finnst mér vera greinlegur og mikilvægur merkingarmunur á flug og flugferð. Ég get t.d. sagt ég var að koma úr langri flugferð – þurfti að fara í þrjú flug. Þarna fyndist mér ótækt að segja ég var að koma úr löngu flugi ef ég skipti um vélar, en eins fyndist mér ótækt að segja þurfti að fara í þrjár flugferðir ef eitt flug tekur við af öðru – þá er þetta ein ferð. En hvað sem þessu líður er ljóst að það er ekkert athugavert við að segja öllum flugum hefur verið frestað.