Fláð og sláð
Í Málvöndunarþættinum var nýlega vitnað í þáttagerðarmann á K100 sem hefði sagt „Ég get sláð á þráðinn“ og spurt hvort einhverjum fyndist þetta í lagi. Væntanlega finnst fæstum það því að sögnin slá beygist sterkt – er slæ í nútíð, sló í þátíð og slegið í lýsingarhætti þátíðar eins og í umræddu dæmi. Það þarf samt ekki að koma á óvart að mynd eins og sláð bregði fyrir. Sögnin slá beygðist nefnilega alveg eins og flá og löng hefð er fyrir veikum myndum af þeirri sögn – flái í nútíð, fláði í þátíð og flegið í lýsingarhætti þátíðar. Það er samt ekki svo að veika beygingin hafi alveg tekið við af þeirri sterku, heldur tíðkast báðar að einhverju leyti í nútímamáli og hafa að hluta til með sér verkaskiptingu eins og fram kemur hér á eftir.
Veikar þátíðarmyndir sagnarinnar flá eru gamlar og koma fyrir þegar á 17. öld enda eru þær yfirleitt viðurkenndar – í Málfarsbankanum segir: „Kennimyndir: flá, fláði, flegið. Til var sterk þátíðarbeyging, fló sem vikið hefur fyrir veiku þátíðinni fláði.“ Skiptar skoðanir eru hins vegar um lýsingarháttinn fláður sem þó er einnig gamall og kemur fyrir í kvæðinu „Kvölddrykkjan“ eftir Jónas Hallgrímsson: „skal það bændum / af baki fláð.“ Í Morgunblaðinu 1980 svaraði Gísli Jónsson spurningunni „Er rétt að segja að refirnir hafi verið fláðir?“ með „Nei, mér finnst það ekki rétt og því síður fallegt“ og Jón Aðalsteinn Jónsson segir í Morgunblaðinu 2000: „Ég hygg, að enn sé almennt talað um, að kindin hafi verið flegin, en ekki fláð.“
Í skýringum við beygingu sagnarinnar flá í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Sögnin hefur tvær merkingar: 1. 'spretta eða fletta e-u af, t.d. húð af líkama; féfletta, …': Hann flær dýrið. Í þessari merkingu er beygingin yfirleitt sterk nema í þátíð. Sjá Íslenska orðsifjabók. 2. 'flaka frá, vera fleginn' (o.fl.): Hálsmálið fláir. Í þessari merkingu er beygingin yfirleitt veik. Sjá Íslenska orðsifjabók. Í þátíð er beygingin nánast alltaf veik í báðum merkingum: Hann fláði dýrið. Hálsmálið fláði áður en það var lagað. Í lýsingarhætti þátíðar er fláður haft um fláningu en fleginn haft um fláa, t.d. flegið hálsmál. (Sterk beyging, t.d. framsöguháttur í nútíð: hann flær, þt. hann fló; veik beyging, t.d. framsöguháttur í nútíð: e-ð fláir, þt. e-ð fláði.)“
Þótt ákveðin verkaskipting sé milli veiku og sterku myndanna er valið líka oft smekksatriði: „Mér finnst rétt að halda í gömlu beyginguna af flá, eins og hægt er. Hún er fallegri, þykir mér“ sagði Gísli Jónsson í Morgunblaðinu 1982, og í pistli frá 1980 sagði hann að fláðir væri „nákvæmlega eins og sagt væri: Mennirnir voru sláðir, ekki slegnir“. Þetta er alveg rétt og þess vegna hefði mátt búast við því að slá fylgdi í kjölfar flá og fengi veika beygingu til hliðar við þá sterku, en engin dæmi um slíkt er að finna á tímarit.is nema í vísu eftir Ísleif Gíslason (1873-1960) þar sem er gantast með sagnbeygingu Guddu nokkurrar: „Í deig ég náði og brauðin bók, / Bjarni fláði og skinn af tók, / litli snáðinn lesti í bók, / Loftur sláði, en Gunna rók.“
Í Risamálheildinni eru þó um 100 dæmi um veikar myndir af slá, nær öll af samfélagsmiðlum. Í héraðsdómi frá 2019 segir þó: „já ég sláði hann … með hendinni“. Í Kjarnanum 2018 segir: „Þingmenn fá 181.050 í persónuuppbót sem er orlofs- og desemberuppbót sláð saman í eina tölu.“ Í Skessuhorni 2007 segir: „Hann hlaut að hafa sláð inn vitlaust númer.“ Ef eingöngu er litið á formið er það vitanlega rétt hjá Gísla Jónssyni að sláðir er „nákvæmlega eins“ og fláðir. En munurinn er sá að af einhverjum ástæðum hefur fólk farið að nota veikar myndir af flá og gert það svo lengi að hefð er komin á þær. Hið sama gildir ekki um slá – engin hefð er komin á veikar myndir af þeirri sögn og þess vegna rétt að halda í sterku beyginguna meðan kostur er.