Önnum kafnari

Í gær var spurt í Málvöndunarþættinum hvort sambandið önnum kafinn stigbreyttist – og þá hvernig. Tilefnið var að í Kastljósi gærkvöldsins var talað um „önnum kafnasta tónlistarmann landsins“. Í nútímamáli kemur lýsingarorðið kafinn varla fyrir nema í þessu sambandi þótt stöku dæmi séu um annað. Í Tímanum 1873 segir: „þótt hann byggi aldrei stórbúi og væri ómegð kafinn.“ Í Norðanfara 1883 segir: „hann er skuldum vafinn og börnum kafinn.“ Í Ofvitanum segir Þórbergur Þórðarson: „Langt fram eftir sumri var hinn fagurblái himinn kafinn suddagráu skýjahafi.“ Í Bliki 1980 segir: „Hvernig mætti það gerast, væri bæjarsjóður kafinn skuldum?“ Á fótbolti.net 2013 segir: „Ekkert verður af því þar sem völlurinn er kafinn snjó.“

Upphaflega er kafinn lýsingarháttur þátíðar af sögninni kefja sem merkir 'kaffæra' og er að mestu horfin úr málinu – hana er t.d. hvorki að finna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamálsÍslenskri nútímamálsorðabók. Hins vegar er kafinn flettiorð í báðum söfnum – sambandið önnum kafinn er m.a.s. sjálfstæð fletta í orðabókinni. Í Beygingarlýsingunni er tekið sérstaklega fram að kafinn sé notað í orðasambandinu önnum kafinn en þar er orðið eingöngu gefið í frumstigi. Á annað hundrað dæmi eru þó um beygingarmyndir miðstigs og efsta stigs á tímarit.is, það elsta í Þjóðviljanum unga 1898: „hið mesta happ fyrir það er […] að hafa sem ókunnugastan og önnum kafnastan mann í öðrum störfum í æðsta stjórnarsessi sínum.“

Í Vísi 1911 segir: „Sú breyting hefir á orðið að nú keppast allir við að vera enn önnum kafnari, en þeir nokkurn tíma eru.“ Í Vísi 1949 segir: „Hún er önnum kafnasta líffæri líkamans.“ Í Vísi 1957 segir: „Hann sór þess dýran eið að virða stjómarskrá Englands, þegar hann var sem önnum kafnastur í njósnarstarfsemi.“ Í Vikunni 1959 segir: „Hann er talinn einn önnum kafnasti leikari í veröldinni.“ Í Morgunblaðinu 1959 segir: „Að skólafólki slepptu eru það þeir starfsömustu og önnum köfnustu, sem stundvísastir eru.“ Í Morgunblaðinu 2007 segir: „Oft heyrist að vilji menn sjá árangur sé best að fela önnum kafnasta fólkinu verkin.“ Það er því löng hefð fyrir stigbreytingu orðsins kafinn og ég sé ekkert athugavert við hana.