Að efla hatur
Herferð Jafnréttisstofu, „Orðin okkar“, er rekin undir kjörorðinu „Notum orðin okkar til að uppræta hatur, ekki efla það“. Um daginn var spurt hér út í þessa orðanotkun – fyrirspyrjanda fannst óeðlilegt að tala um að efla neikvæða hegðun og vildi heldur tala um að auka hatur, ýta undir hatur eða eitthvað slíkt. Málið snýst sem sé um það hvort sögnin efla vísi í eðli sínu til einhvers sem er jákvætt eða æskilegt. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin skýrð 'gera (e-ð) öflugri, styrkja (e-ð)' og í Íslenskri orðabók hún skýrð 'styrkja' en einnig 'halda, stofna til'. Í hvorugu tilvikinu kemur beinlínis fram að sögnin sé aðallega eða eingöngu notuð í jákvæðri merkingu þótt hugsanlega megi draga þá ályktun af notkunardæmum sem tekin eru.
Sambandið efla hatur er meira en 150 ára gamalt í málinu – elsta dæmið í Gefn 1870: „blaðamennirnir eru búnir að æsa þjóðirnar og efla hatur og illindi á allar lundir.“ Ýmis dæmi eru um efla með öðrum orðum sem telja má neikvæð. Í Degi 1922 segir: „Þeir vilja efla ófriðinn í landinu, með því að kjósa á þing hinn skæða ófriðarsegg Ingólf Bjarnarson í Fjósatungu.“ Í DV 1983 segir: „Verðlagsstjóri hefur um nokkurt skeið beitt öllu skrifstofuliði sínu til þess að efla styrjöld gegn Reykjavíkurborg.“ Í Morgunblaðinu 1969 segir: „Skriffinnarnir sitja sem sé við sinn keip og reyna að efla óvild í stað athafna.“ Í Alþýðumanninum 1933 segir: „Þeir vilja fara inn á þing til þess að hrópa og hafa hátt, auka glundroðann, efla sundrungina.“
Þarna eru, auk haturs, orðin ófriður, styrjöld, óvild og sundrung, en einnig má finna dæmi um óvináttu, reiði, fjandskap og ýmis fleiri neikvæð orð. Það er því enginn vafi á að mörgum finnst ekkert athugavert við að nota sögnina efla um eitthvað sem er neikvætt eða óæskilegt. En hitt er líka ljóst að margfalt algengara er að sögnin sé notuð í jákvæðri eða hlutlausri merkingu. Við getum litið svo á að sögnin hafi tvo merkingarþætti – grunnmerking hennar sé hlutlaus, 'auka, styrkja', en auk þess hafi hún í máli margra, en ekki allra, merkingarþáttinn 'jákvætt'. Það er ekkert að því að við notum ekki öll sögnina á alveg sama hátt – hvorugt er réttara en hitt, og þessi munur er ekki þess eðlis að líklegt sé að hann valdi misskilningi.