Málfarsviðmið í íslenskum skáldsögum

Í nýlegu útvarpsviðtali við Þórdísi Gísladóttur rithöfund kom fram að hún væri „mjög meðvituð um hve ólík hefðbundin bókmenntaíslenska sé talmáli. „Ég held að við þurfum aðeins að slaka meira á í íslenskum bókmenntum og taka aðeins nútímann inn,“ segir hún. „Ef þú ert að skrifa samtímabókmenntir allavega, þá þarftu aðeins að hugsa um að vera í samtímanum.““ Ég tók þessi ummæli upp hér í gær og tengdi þau við þá skoðun sem ég hef lengi haldið fram, að ýmis viðmið í íslenskum málstaðli séu úrelt og löngu kominn tími á að endurskoða málstaðalinn og færa hann nær máli almennings. Málfarsviðmið sem eru fjarri máli því máli sem er talað í landinu valda rofi milli ritmáls og talmáls sem er stórhættulegt íslenskunni til lengdar.

Í umræðum var bent á að talmál og slangur hefði iðulega verið notað í íslenskum bókmenntum – með misjöfnum árangri – en úreltist stundum fljótt og yrði ankannalegt. Elsta dæmið um þetta er líklega Vögguvísa eftir Elías Mar frá 1950 þar sem málfar persóna einkenndist af slangri og margs konar „málvillum“. Fleiri tegundir frávika má nefna – Sigríður Hagalín Björnsdóttir lætur persónu í nýrri bók sinni Deus tala án þess að nota viðtengingarhátt, og Fríða Ísberg sagði í viðtali um skáldsöguna Merkingu frá 2021: „Að sama skapi lét ég Tristan tala á sérstakan hátt til að sjá hvort það hefði áhrif á samkennd gagnvart honum. Yrði hann settur skör lægra, myndi hann strax verða fordæmdur af því hann segir einhvern meginn en ekki einhvern veginn?“

Ég hef lesið einar átta íslenskar skáldsögur sem komu út fyrir jólin. Þær eru mjög ólíkar að efni, efnistökum, málfari og stíl, en eitt eiga þær þó sameiginlegt: Í þeim er undantekningarlítið eða undantekningarlaust farið eftir þeim viðmiðum um „rétt“ mál sem hafa verið viðtekin og viðurkennd undanfarna áratugi – frá því snemma á tuttugustu öld. Þetta gildir ekki bara um texta bókarhöfunda, heldur líka um það sem persónum bókanna er lagt í munn. Nú vitum við að mér langar er eðlilegt mál allnokkurs hluta þjóðarinnar. Sama gildir um ég vill, og mörgu ungu fólki er líka eðlilegt að segja það var hrint mér. Ég man samt ekki eftir því að ein einasta persóna í þeim bókum sem ég hef lesið að undanförnu – eða áður – hafi talað á þennan hátt.

Í þeim dæmum sem hér hafa verið nefnd um frávik frá málstaðlinum í skáldsögum, og öðrum dæmum sem ég man eftir, þjóna frávikin ákveðnum tilgangi – þau einkenna persónuna, flokka hana, setja hana jafnvel „skör lægra“ en ella eins og Fríða Ísberg sagði. Hvernig stendur á því að persónur í bókunum fá ekki að tala eðlilega og hversdagslega íslensku á jafnréttisgrundvelli? Af hverju fá ekki sumar persónur að segja mig langar og ég vil en aðrar mér langar og ég vill án þess að það þurfi að lesa eitthvað í það, annað en að við tölum ekki öll eins? Ég veit ekki hvort þetta er þáttur í því sem Þórdís var að fara, en mér finnst þetta a.m.k. mikilvæg spurning: Af hverju geta ekki einu sinni persónur í bókum slitið sig frá aldargömlum viðmiðum?