Rotinn fiskur
Í frétt á Vísi í dag er sagt frá flugfarþega sem hafði „með sér um borð rotinn fisk“. Vitnað er í frétt Guardian þar sem segir: „A passenger reportedly brought rotten fish on to the plane.“ Nú eru íslenska orðið rotinn og enska orðið rotten orðsifjafræðilega náskyld, og enska orðið m.a.s. talið eiga sér norrænar rætur. Þau eru líka náskyld merkingarlega, en þó er nokkur munur á. Enska orðið er skýrt 'decayed', eða 'skemmt, brotið niður', en það íslenska er skýrt 'sem rotnun er í, sem hefur rotnað, rotnaður' í Íslenskri nútímamálsorðabók og sögnin rotna aftur skýrð 'brotna niður og verða að jarðvegi'. Það sem skilur á milli er sem sé 'verða að jarðvegi' sem er mikilvægur þáttur í skilgreiningu íslenska orðsins en ekki nefndur í því enska.
Sögnin rotna og lýsingarorðið rotinn eru notuð um fullkomið niðurbrot á lífrænu efni – gróðri, ávöxtum, hræjum dýra, líkum fólks o.fl. Í Norðurlandi 1910 segir: „Ef haustlaufinu er safnað og það látið rotna í haugum, verður úr því góður áburður.“ Í Gimlungi 1911 segir: „Öll gróðurmold myndast fyrir áhrif bakteríanna, sem koma jurtum og öllum lífrænum efnum til að rotna.“ Í Þjóðviljanum 1955 segir: „Hræ af búsmala liggja hvarvetna í hrönnum og rotna.“ Í Vísi 1943 segir: „Nokkur lík rak nú á land og fóru skipbrotsmenn bónarveg að Márum og báðu þess, að mega grafa líkin, en Márar svöruðu því til, að hræ hunda létu þeir að jafnaði rotna undir berum himni.“ Í Frjáls Palestína 1993 segir: „Nú rotna ávextir á trjám og grænmeti í görðum.“
Aftur á móti hafa þessi orð yfirleitt ekki verið notuð um skemmdir á matvælum – þá eru fremur notuð orð eins og skemmt eða úldið eða fúlnað – skemmt kjöt, úldinn fiskur, fúlnuð mjólk. En áðurnefnt dæmi um rotinn fisk er þó ekki einsdæmi. Örfá dæmi, rúmlega 10 samtals, um rotið kjöt og rotinn fisk má finna á tímarit.is, t.d. „Ef hreinlæti er ábótavant rotnar kjötið áður en það meyrnar“ í Frey 1986 og „stór hluti flatts fisks í gámunum hafi verið rotinn“ í Þjóðviljanum 1991. Í Risamálheildinni eru um 20 dæmi um þessi sambönd. Lausleg athugun bendir til þess að þau séu langflest úr þýddum fréttum og verið sé að þýða enska lýsingarorðið rotten – ég hef flett nokkrum dæmanna upp og gengið úr skugga um að þannig er í pottinn búið.
Þetta er sem sé dæmi um það sem stundum er kallað falsvinur, „orð sem hefur aðra merkingu í erlendu máli en búast má við miðað við merkingu sams konar orðs í öðru máli“ eins og segir í Íslenskri orðabók. Vissulega er merkingarmunurinn þarna ekki mikill og stundum getur verið óljóst hvort rotna á við, eins og t.d. í Búnaðarritinu 1901: „Skrokkar af veikum dýrum og sjálfdauðum rotna jafnan miklu fyr en af þeim, sem slátrað er heilbrigðum“ – þarna er spurning hvort verið er að tala um hræ eða matvæli. Þótt þessi merkingarmunur á rotna og úldna eða skemmast sé kannski ekki stórmál finnst mér æskilegt að halda í hann og rétt er að nefna að í áðurnefndri frétt Vísis segir líka: „Þeir hafi fundið hinn úldna fisk umvafinn dagblaðapappír.“