Það er farið að auðnast

Í Málvöndunarþættinum var nýlega spurt hvort fólk kannaðist við þá merkingu sagnarinnar auðnast sem hún hefur greinilega í setningunni „Þetta er eini skaflinn sem ekki náði að auðnast í hlákunni.“ Nokkrir þátttakendur í umræðunni sögðust kannast við þetta, einkum úr Skaftafellssýslum en einnig úr Dölunum. Notkun lýsingarorðsins auður í þessari merkingu er vitanlega vel þekkt, auð jörð, og nafnorðið auðna er líka til í merkingunni 'ís- eða snjólaus blettur', 'auð jörð'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og í Íslenskri orðabók er einnig nefnt að germyndarsögnin auðna komi fyrir í ópersónulegri notkun, það auðnar, í merkingunni 'snjó (ís) leysir'. Hins vegar er þessa merkingu miðmyndarinnar ekki að finna í orðabókum.

Í Ritmálssafni Árnastofnunar er þó að finna fjögur dæmi um þessa merkingu, það elsta úr Þjóðólfi 1890: „nú aptur blíða og jörð að auðnast.“ Það dæmi er úr fréttum sem blaðinu höfðu verið sendar úr Norður-Múlasýslu, og tvö önnur dæmi frá því upp úr 1970 eru tengd Múlasýslum. Yngsta dæmið er svo frá 1979, úr bókinni Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson: „Það er að byrja að auðnast sagði fólk, er auðir blettir tóku að rjúfa fönnina vegna sólbráðar eða hláka.“ Þetta bendir til þess að orðið hafi verið sjaldgæft og því þótt ástæða til að skýra það. Vegna samfalls við sögnina auðnast í merkingunni 'takast' sem er mjög algeng er erfitt að leita að dæmum í rafrænum textum, en þó hef ég fundið nokkur dæmi á tímarit.is.

Í Heimskringlu 1904 segir: „Ef jörð auðnast, þá væri það mikill munur.“ Í Hlín 1949 segir: „Hreindýr hafa verið gestir okkar í kringum túnin í langan tíma, en eru nú held jeg horfin, síðan fór að auðnast.“ Í Tímanum 1951 segir: „Var í gærkveldi farið að auðnast í Blönduhlíð og Lýtingsstaðahreppi, og víða farnir að koma upp rindar.“ Í Veðrinu 1961 segir: „Síðan var éljagangur og snjókoma í þrjá daga með nokkru frosti, en þ. 30. hlýnaði og fór að rigna, svo jörð auðnaðist á ný.“ Í Morgunblaðinu 1973 segir: „Veðráttan hefur verið ákaflega góð upp á síðkastið og það er mikið farið að auðnast.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Í baksýn sést inn Jökuldalinn þar sem sést í kolsvartan sandbakkann sem er fylgifiskur þess þegar jörð auðnast.“

Ég hef fundið fáein dæmi í viðbót, en það síðastnefnda er yngsta dæmi sem ég hef fundið. Nær öll dæmin er hægt að tengja við Múlasýslur þannig að það er ljóst að þessi notkun hefur einkum tíðkast þar og í Skaftafellssýslu. Hún virðist þó alltaf hafa verið sjaldgæf í ritmáli eins og marka má bæði af fæð dæma og af því að hún er ekki gefin í orðabókum. Hins vegar benda undirtektir í umræðu í Málvöndunarþættinum til þess að hún sé enn bærilega lifandi í töluðu máli. Þetta sýnir okkur enn og aftur að orð geta geymst í máli almennings áratugum og öldum saman án þess að komast á prent að ráði. En þetta ætti líka að hvetja okkur til fordómaleysis því að það sýnir vel að ástæðulaust er að afgreiða allt sem við þekkjum ekki sem bull og vitleysu.