Letigarður, vinnuhæli og önnur „lokuð búsetuúrræði“

Áform dómsmálaráðherra um „lokað búsetuúrræði“ hælisleitenda, sem augljóslega er ekkert annað en fangelsi, er einstaklega gróft dæmi um hagræðingu stjórnvalda á tungumálinu í blekkingarskyni – „nýlensku“ (newspeak) eins og það hét hjá George Orwell í 1984. En þetta er þetta ekki í fyrsta skipti sem umdeilt heiti er áformað á „lokuðu búsetuúrræði“ fyrir fólk sem stjórnvöldum þykir af ýmsum ástæðum ekki heppilegt að leiki lausum hala. Fyrir tæpri öld, árið 1928, lagði þáverandi dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu, fram á Alþingi frumvarp „til laga um heimild fyrir landsstjórnina til að reisa betrunarhús og letigarð“ – „til að fangar, og slæpingar, sem ekki vilja vinna fyrir sjer eða sínum, geti stundað holla og gagnlega vinnu“.

Í greinargerð segir: „Með vaxandi þjettbýli við sjávarsíðuna, og einkum vegna hins öra vaxtar höfuðstaðarins, hefir myndast talsverð stjett slæpinga, er ekki vilja sinna gagnlegri vinnu, og verða sjálfir, og þá ekki síður börn þeirra, þjóðfjelaginu til byrði.“ Óneitanlega er orðræðan þarna óþægilega lík ýmsu sem nú er sagt um hælisleitendur, en frumvarpið er með lausn á vandanum: „Úr þessu þarf að bæta og er álitið að vel megi sameina nýtísku betrunarhús og letigarð, þar sem heilsuhraustir letingjar væru þvingaðir til að vinna.“ Einnig segir að „landeyður […] myndu mjög oft fremur vilja vinna eins og frjálsir menn, heldur en komast á slíkt vinnuheimili, þar sem aðbúðin væri að vísu góð, en þeir þó sviftir frelsi […]“.

Þarna var ekki verið að fela neitt með orðskrúði eða merkingarbreytingum orða – þetta „lokaða búsetuúrræði“ var ætlað fyrir slæpingja, landeyður og letingja, og því réttnefnt letigarður. Eitthvað hefur þó bersögli orðsins letigarður farið fyrir brjóstið á sumum – séra Sigurbjörn Á. Gíslason skrifaði t.d. í Vísi að það væri „miklu betra að kalla þá deild vinnustofnun, vinnuhæli, eða eitthvað þvílíkt, svo að nafnið sjálft sé ekki hnefahögg á tilfinningar heimilismanna og ættingja þeirra“. Við meðferð málsins á þingi lagði Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti Íslands, fram tillögu um að í stað orðsins letigarður kæmi vinnuhæli. Þetta var samþykkt og upp úr því var stofnað Vinnuhælið á Litla-Hrauni eins og fangelsið þar hét lengi vel, fram undir 1990.

En þótt vinnuhæli sé kannski ekki eins mikið „hnefahögg á tilfinningar“ fólks og letigarður fer ekki hjá því að það sé neikvætt orð. Þótt hæli út af fyrir sig sé skýrt 'skjól, athvarf' og 'sjúkrastofnun, ýmist til lækninga, heilsubótar eða hressingar' í Íslenskri nútímamálsorðabók, og til séu jákvæðar samsetningar eins og heilsuhæli og hressingarhæli, þá eru langflestar samsetningar með -hæli neikvæðar – vísa til staðar þar sem fólk er vistað meira og minna nauðugt. Þetta eru orð eins og berklahæli, drykkjumannahæli, fávitahæli, geðveikrahæli, holdsveikrahæli, munaðarleysingjahæli, þurfamannahæli o.fl. – sem betur fer eru þau flest fallin úr notkun að mestu, eins og vinnuhæli. Fangelsi er fangelsi, hvaða nafni sem það er kallað.