Njóttu dagsins

Öðru hverju kemur upp umræða um frasann eigðu góðan dag sem starfsfólk í þjónustustörfum notar oft í kveðjuskyni. Oft er amast við þessu sambandi á þeim forsendum að það sé komið af kveðjunni have a nice day sem oft er notuð í ensku við sömu aðstæður. Engin ástæða er til að efast um að enska kveðjan hafi ýtt undir þá íslensku þótt tæplega sé hægt að segja að um beina þýðingu sé að ræða – bæði have og nice eiga sér beinni samsvaranir í íslensku en eiga og góður. Auk þess kemur sambandið haf góðan dag – sem stendur enskunni öllu nær – fyrir í fornu máli, einkum sem heilsun en einnig sem brottfararkveðja. Um þetta hef ég skrifað áður en eftir það hefur Sigríður Sæunn Sigurðardóttir gert sambandinu ítarleg skil í grein í Íslensku máli.

Sigríður Sæunn nefnir ýmsar kveðjur sem bent hafi verið á að nota megi í staðinn fyrir eigðu góðan dag: „Blessuð, Vertu sæl, Hafðu það gott, Njóttu dagsins og Verði dagurinn þér góður.“ Af þessum kveðjum er njóttu dagsins langoftast nefnd – þannig segir Örn Bárður Jónsson í Vesturbæjarblaðinu 2006: „Nú á tímum enskuskotinnar íslensku segir fólk gjarnan: eigðu góðan dag eða hafðu góðan dag sem er auðvitað hræðilega léleg þýðing á ensku kveðjunni „have a good day.“ Betra þykir mér að segja: njóttu dagsins sem er hljómfögur kveðja og í ætt við glaðlega kveðju skáldsins rómverska“ – þ.e. carpe diem hjá Hórasi. Hið sama kemur t.d. fram í pistli Eiðs Guðnasonar 2012, hjá Helga Snæ Sigurðssyni í Morgunblaðinu 2018, o.v.

En það er ekki víst að njóttu dagsins sé endilega betur ættað en eigðu góðan dag. Elsta dæmið um þetta samband í íslensku er í ljóði í vesturíslensku blöðunum Lögbergi og Heimskringlu 1913: „Njóttu dagsins, ljóss og lista.“ Þarna er hugsanlega um að ræða áhrif frá ensku þótt svo þurfi vitaskuld ekki að vera. Næst kemur sambandið fyrir í grein eftir Sigurð Einarsson í Straumum 1928: „Augu hans segja: „njóttu dagsins vel“, þegar hann mætir mér.“ Í kvæði eftir vesturíslenskt skáld í Lögbergi 1938 er línan „Sigurvinnings njóttu dagsins“ og í kvæði í Nýju kvennablaði 1951 er línan „komdu barn og njóttu dagsins“. Það er athyglisvert að þrjú af þessum fjórum dæmum eru úr kvæðum, þar af tveim eftir vesturíslensk skáld.

Þetta eru einu dæmin um sambandið fram á seinni hluta sjöunda áratugarins, en þá fer það að blómstra. Í stjörnuspá í Vísi 1967 segir: „Láttu allar starfsáhyggjur lönd og leið og njóttu dagsins.“ Ekki kemur fram hvort spáin er þýdd en það verður að teljast líklegt. A.m.k. leikur enginn vafi á því í dæminu „Ýttu áhyggjum til hliðar og njóttu dagsins“ í Morgunblaðinu 1968, því að það er úr stjörnuspá Jeane Dixon. Á næstu árum þar á eftir og fram undir þetta eru fjölmörg dæmi um sambandið úr stjörnuspám – framan af flest úr spám Jeane Dixon en síðar einnig úr spám Frances Drake í Morgunblaðinu, spám Athenu Lee í Degi og spám í öðrum blöðum þar sem höfundar er ekki getið en líklegt má telja að séu oft þýddar úr ensku.

Fram til 1997 kemur sambandið njóttu dagsins nánast eingöngu fyrir í stjörnuspám, fyrir utan nokkur dæmi um „Njóttu dagsins með Dentokej“ í auglýsingu frá 1978 um Wrigley‘s tyggjó, sennilega þýddri. En árið 1997 fer sambandið svo að sjást í íslenskum auglýsingum – „Gríptu ostinn og njóttu dagsins!“ frá Osta- og smjörsölunni, „Njóttu dagsins og komdu í Kringluna“, „Njóttu dagsins – taktu flugið“ frá Flugfélagi Íslands, o.fl. Strax upp úr aldamótum nær sambandið svo töluverðu flugi í auglýsingum en þó miklu fremur á samfélagsmiðlum. Á tímarit.is eru tæp 300 dæmi um sambandið, þar af 200 frá þessari öld, og á sjötta hundrað dæma er um sambandið í Risamálheildinni, þar af hátt í fimm hundruð af samfélagsmiðlum.

Án þess að ég geti fullyrt það finnst mér langtrúlegast að bæði í stjörnuspánum og tyggjóauglýsingunni – sem sé í nær öllum dæmum fram til 1997 – sé yfirleitt verið að þýða enjoy the day eða enjoy your day sem hvort tveggja eru algeng sambönd í ensku og oft notuð á sama hátt og have a nice day. Þessi sambönd samsvara njóttu dagsins nákvæmlega – raunar mun nákvæmar en eigðu góðan dag samsvarar have a nice day. Sé uppruni sambandsins eigðu góðan dag talinn enskur, þrátt fyrir að orðin séu íslensk, gildir hið sama ekki síður um sambandið njóttu dagsins. Vilji fólk forðast ensk áhrif er njóttu dagsins því ekki leiðin til þess. En vitanlega eru bæði eigðu góðan dag og njóttu dagsins góð og gild íslenska.