Mannleg mistök

Hér hefur oftar en einu sinni verið rætt um orðasambandið mannleg mistök sem mörgum finnst undarlegt – það er fólk sem gerir mistök og hljóta þá ekki öll mistök að vera mannleg? Orðið mistök er skýrt 'það sem er gert rangt' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'yfirsjón, handvömm, vangá, e-ð rangt, óheppilegt' í Íslenskri orðabók. Þar er sambandið mannleg mistök reyndar skýrt sérstaklega sem 'mistök vegna vangár eða vanrækslu (starfs)manna (en ekki vélarbilunar, náttúruaðstæðna o.s.frv.)' en merkt !? sem þýðir „orð eða málatriði sem ekki nýtur fullrar viðurkenningar, telst ekki gott mál í venjulegu samhengi“. Ástæðan fyrir þessari merkingu er væntanlega sú að mannleg þyki ofaukið vegna þess að sjálfgefið sé að mistök séu mannleg.

Oft eru mistök afleiðing ákvörðunar sem hefur verið hugsuð vandlega í langan tíma og það sem var gert var nákvæmlega það sem til stóð – en reynist samt sem áður hafa verið rangt, eftir á að hyggja. Það getur liðið langur tími áður en fólk kemst að þeirri niðurstöðu að þessi ákvörðun hafi verið röng, og það getur iðulega verið umdeilt hvort hún hafi verið það yfirleitt – t.d. þegar um er að ræða ákvarðanir í stjórnmálum. Aftur á móti sýnist mér að sambandið mannleg mistök sé einkum notað þegar um er að ræða athöfn eða aðgerð sem framkvæmd er að lítt hugsuðu máli eða í ógáti – jafnvel þegar annað er gert en til stóð, t.d. ýtt á rangan takka eða eitthvað slíkt. Yfirleitt kemur þá strax í ljós að mistök hafa verið gerð og um það er sjaldnast ágreiningur.

Þegar orðalagið mannleg mistök er gagnrýnt á þeim forsendum að öll mistök séu manngerð og hljóti þar af leiðandi að vera mannleg er litið fram hjá því að lýsingarorðið mannlegur hefur tvær merkingar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'eins og maður, með þeim ágöllum sem því fylgir' og 'sem varðar manninn, manneskjuna'. Í Íslenskri orðabók eru sömu merkingar gefnar þótt lýsing þeirra sé orðuð eilítið öðruvísi – sú fyrri er 'í samræmi við mannseðlið' og sú seinni 'sem heyrir til mönnum'. Dæmið sem tekið er um þá fyrri er það er mannlegt að skjátlast – sem er einmitt merkingin sem lýsingarorðið hefur í sambandinu mannleg mistök. En fólk virðist oft líta svo á að í þessu sambandi sé um seinni merkinguna að ræða – sem er rangt.

Þetta þýðir að fólk gerir yfirleitt ekki mannleg mistök í þeirri merkingu að um meðvitaða og áformaða aðgerð sé að ræða – mannleg mistök gerast eða verða, oft vegna ytri aðstæðna, þau eru slys, óhöpp. Þessi sérstaða mannlegra mistaka kemur t.d. skýrt fram í því að á tímarit.is er á níunda hundrað dæma um sambandið gerði mistök en aðeins eitt um gerði mannleg mistök, og í Risamálheildinni eru tæp sjö hundruð dæmi um ég gerði mistök en aðeins þrjú um ég gerði mannleg mistök. Vissulega er ekki alltaf skýr munur á mistökum og mannlegum mistökum en það er samt í raun og veru ekki rétt að líta einfaldlega á mannleg mistök sem undirflokk mistaka – þau eru oftast annars eðlis og mér finnst ekkert að því að tala um mannleg mistök.

Hlutverk lýsingarorðsins í sambandinu mannleg mistök er að leggja áherslu á að það sé mannlegt að gera mistök og þar með oft að afsaka það sem gerðist og draga úr ábyrgð gerandans. Það er líka mannlegt – í sömu merkingu – en við þurfum að gæta þess vel að þetta orðalag sé ekki misnotað. Í frásögn Vísis af glæfraakstri rútu á Reykjanesbraut fyrr í vikunni var haft eftir yfirmanni verkstæðis þar sem rútan átti að vera: „Hann segir ljóst að þarna hafi verið um mannleg mistök að ræða.“ En þetta voru alls ekki mannleg mistök í þeirri merkingu sem það samband hefur vanalega. Þessu athæfi verður betur lýst sem alvarlegum dómgreindarskorti og jafnvel „einbeittum brotavilja“ svo að notað sé orðalag úr lögfræði.