Töluðu pabbi og mamma rangt mál?

Í umræðu um kynhlutlaust mál í Vísi, á Bylgjunni og Samstöðinni undanfarna daga hefur því verið haldið fram að nú sé farið að tíðkast í skólum að láta nemendur koma textum yfir á kynhlutlaust mál. Í umræðunni er ýmist talað um að nemendur séu látnir breyta textunum eða leiðrétta þá. Nú veit ég ekkert um hvort þetta er gert, og þá hvaða fyrirmæli eru gefin, en í mínum huga er grundvallarmunur á þessu tvennu. Ef nemendur eru beðnir að leiðrétta texta felst í því að hann sé rangur. Sé þeir aftur á móti beðnir um að breyta texta í átt til kynhlutleysis felst ekki endilega í því að textinn sé rangur, heldur getur þetta verið góð og gagnleg æfing í stíl við ýmsar aðrar sem lagðar eru fyrir nemendur, eins og t.d. að breyta beinni ræðu í óbeina.

Í samtali um þetta á Samstöðinni var spurt: „Hvaða skilaboð erum við að gefa börnunum okkar þegar við segjum þeim að tungumálið sem foreldrar þeirra og afar og ömmur tala sé rangt?“ Það má sannarlega taka undir að slík skilaboð eru óheppileg, en kannski hefði mátt huga að þessu fyrr. Þetta er nefnilega nákvæmlega það sem við höfum verið að gera í skólum síðan í byrjun tuttugustu aldar. Börn sem hafa sagt mér langar, ég vill, hitta læknirinn, til systir minnar o.s.frv. hafa svo sannarlega fengið að heyra það að hafa lært „rangt mál“ í foreldrahúsum, enda hlutverk málvöndunar sagt „að lyfta þeim, sem ekki hafa átt nógu góðan „pabba og mömmu“ yfir málstig foreldranna“ eins og málfræðiprófessor skrifaði fyrir rúmum fimmtíu árum.

Auðvitað er það hlutverk skólanna að fræða nemendur um mismunandi málsnið og tilbrigði í máli. Það er mikilvægt að nemendur átti sig á stöðu mismunandi tilbrigða í málsamfélaginu og þess vegna er sjálfsagt að benda á að tilbrigði eins og mér langar, ég vill, hitta læknirinn, til systir minnar o.s.frv. eru ekki hluti af málstaðlinum og þar af leiðandi getur verið óheppilegt að nota þau við aðstæður þar sem ætlast er til formlegs og hefðbundins máls. En í slíkum ábendingum þarf ekki að felast, og má ekki felast, fordæming á þessum tilbrigðum, og það er óviðunandi að nemendur fái þau skilaboð „að tungumálið sem foreldrar þeirra og afar og ömmur tala sé rangt“. Það gildir bæði um klassískar „málvillur“ og kynjað mál.

En hvort sem fólki líkar betur eða verr er kynhlutlaust mál að breiðast út og þess vegna eðlilegt að kennarar fræði nemendur um það. Fái nemendur fyrirmæli um að „leiðrétta“ texta á hefðbundnu máli er það vissulega óheppilegt vegna þess að þeir eru vitanlega ekki „rangir“ í neinum skilningi. En æfing í að breyta textum þannig að þeir verði á kynhlutlausu máli eykur skilning á tungumálinu og vekur athygli á því að breyting af þessu tagi er hreint ekkert einfalt mál. Það er einmitt oft talað um að mikið ósamræmi sé í máli þeirra sem reyna að tileinka sér kynhlutlaust mál. Hugsanlega gæti slík æfing meira að segja orðið til þess að nemendur komist á þá skoðun að þetta sé alltof flókið og hverfi frá því að breyta máli sínu í átt til kynhlutleysis.