Tóft og tótt

Hér hefur í dag skapast umræða um framburð orðsins tóft sem einnig má skrifa tótt samkvæmt Íslenskri stafsetningarorðabók. Málfarsbankinn segir líka „Bæði er til orðið tóft og tótt. Hið fyrra er líklega eldra“ og í Íslenskri orðsifjabók segir að í nútímamáli „þekkist orðmyndin tótt (tt samlögun úr ft)“. Þetta er sem sé upphaflega sama orðið en myndin tótt hefur þó að nokkru öðlast sjálfstætt líf, sem sjá má af því að hún fær oft myndina tættur í nefnifalli og þolfalli fleirtölu þótt tóft alltaf tóftir. Sú fleirtala kemur m.a. fyrir í elstu þekktu dæmum um þessa mynd orðsins, frá því um eða fyrir 1700: „ítem er þar í Sandfellslandi tættur nokkurar, sem kirkja skyldi staðið hafa“ og „þar hefur til forna verið staður og sjást enn nú hæglega tætturnar“.

Fram til 1900 eru tæplega 550 dæmi um tóft og aðrar myndir með ft á tímarit.is en litlu færri, rúmlega 500, um tótt og aðrar myndir með tt. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er myndin tóft gefin og hljóðrituð [touht, toufˑt], þ.e. tótt er talið aðalframburðurinn og það er því ljóst að rithátturinn tóft táknar ekki að orðið hafi verið borið fram með ft. Myndin tóft er hins vegar ekki skýrð heldur vísað á tótt sem er því talin aðalritmyndin og sú mynd er eingöngu hljóðrituð [touht]. Í samsetningunni tótta(r)brot er eingöngu gefinn rithátturinn með tt og framburður með ft ekki nefndur. Það er því ljóst að fyrir hundrað árum var framburðurinn tótt yfirgnæfandi og ekki verður séð að nokkur landshlutamunur hafi verið á framburði.

En fyrir hundrað árum þegar meginhluti þjóðarinnar bjó í sveit þekkti fólk tóftir yfirleitt af eigin raun. Orðið hefur því verið algengt í talmáli og fólk kynnst því þar. Þetta er auðvitað gerbreytt og viðbúið að stór hluti þeirra sem þekkja orðið á annað borð hafi fyrst kynnst því á prenti, þar sem myndir með ft hafa verið mun algengari á síðustu hundrað árum. Samfara aukinni stafsetningarkennslu veldur þetta því að búast má við því að áhrif ritháttarins á framburðinn séu miklu meiri en fyrir hundrað árum og því er trúlega mun algengara en áður að þarna sé borið fram ft. Það kom líka fram í umræðu um þetta að mörg þeirra sem tóku þátt í henni telja sig bera fram tóft með ft, og þekkja það úr umhverfi sínu og vera alin upp við það.

Það er vissulega vel hugsanlegt, en hins vegar er alþekkt að fólk er mjög ótraust heimild um sinn eigin framburð, einkum ef það hefur ekki lært neina hljóðfræði. Stafsetningin hefur mjög oft áhrif á það hvernig fólk telur framburð sinn vera. Samlögunin ft > tt er eðlileg og algeng í sumum orðum eins og aftan sem oft verður attan í framburði þótt sú samlögun komi sjaldan fram í stafsetningu (nema helst í orðinu attaníossi sem er dæmigert talmálsorð). Vitanlega get ég ekkert fullyrt um framburð fólks sem ég þekki ekki og hvorki get né vil rengja þau sem telja sig bera fram ft en mig grunar samt að sum þeirra beri fram tótt án þess að gera sér grein fyrir því. Hvað sem því líður er skemmtilegt að velta fyrir sér þessum tilbrigðum.