Að nota og notast við

Hér hefur oftsinnis verið rætt um merkingarbreytingu sem hefur orðið á sambandinu notast við um áhald, aðferð o.fl. Í Íslenskri orðabók er það skýrt 'gera sér að góðu að brúka e-ð (lélegt eða óheppilegt)' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er notast við <áhaldið> skýrt 'nota áhaldið (sem heldur lakari kost)'. Aftur á móti er sögnin nota hlutlaus – með notkun hennar er ekki tekin afstaða til þess hversu heppilegt viðkomandi áhald eða aðferð er. En þetta hefur verið að breytast og notast við er nú oft notað í hlutlausri merkingu. Það er óheppilegt vegna þess að oft getur komið sér vel að geta gert þann greinarmun sem var á nota og notast við, og þetta getur oft valdið misskilningi hjá þeim sem hafa alist upp við hefðbundna merkingu notast við.

Það er erfitt að negla nákvæmlega niður hvenær merking notast við fór að breytast, m.a. vegna þess að samhengið dugir ekki alltaf til að sýna ótvírætt hver hugur mælanda eða höfundar er til þess sem um er rætt. Í Morgunblaðinu 2020 segir t.d.: „Hugmyndin var sú fyrst maður var að fara að brugga fyrir norðan að notast við einhverja norðlenska vöru.“ Hefur sambandið notast við hlutlausa merkingu þarna, eða þýðir þetta að norðlenska varan sé talinn síðri kostur en annað? Það er kannski ekki trúlegt. Stundum er þó augljóst að um hlutlausa merkingu er að ræða, eins og í Fréttablaðinu 2020: „Eingöngu er notast við fyrsta flokks efni bæði innan og utandyra.“ Varla er ástæða til að ætla að notkun fyrsta flokks efnis sé eitthvert neyðarbrauð.

Lausleg athugun bendir til þess að notkun sambandsins notast við fari að breytast á níunda áratugnum – þá fara að sjást stöku dæmi þar sem sambandið virðist ekki hafa neina neikvæða vísun. Þessi dæmi eru þó fá framan af, en frá því um aldamót virðist verulegur hluti dæma um notast við hafa hlutlausa merkingu. Forsendan fyrir því að þetta gat breyst er sú sem að framan greinir, þ.e. oft er ekki hægt að átta sig á þeirri merkingu sem notandi sambandsins leggur í það og því hægt að skilja það á annan hátt en lagt var upp með. En þetta er bara forsenda fyrir því að breytingin gat átt sér stað, ekki skýring á því hvers vegna hún varð í raun og veru. Ástæðuna kann ég ekki að skýra – en þótt þetta sé óheppilegt verður því varla snúið við héðan af.