Sumarlandið
Eitt algengasta orðið í minningargreinum um þessar mundir er sumarland – sagt er að fólk sé farið í sumarlandið eða til sumarlandsins og sé nú í sumarlandinu. Af rúmum tvö þúsund dæmum um orðið sumarland í Risamálheildinni eru nærri þrír fjórðu, tæplega fimmtán hundruð, úr minningargreinum í Morgunblaðinu, til dæmis þessi: „Nú er hann horfinn okkur í sumarlandið, þar munum við hittast síðar“; „Góða ferð til sumarlandsins bjarta kæri vinur“; og „Ég elska þig og við sjáumst í sumarlandinu.“ Það fór að bera á þessari notkun upp úr aldamótum en hún jókst mikið um 2010 og alveg sérstaklega um 2015. En þrátt fyrir þessa miklu tíðni orðsins er það hvorki að finna í Íslenskri orðabók né Íslenskri nútímamálsorðabók.
Hins vegar er sumarland flettiorð í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar sem var gefinn út 1963, en þar kemur þessi merking ekki fram heldur er orðið eingöngu þýtt sem 'sommerland' sem merkir 'sumardvalarstaður', 'sumarbústaðaland' eða slíkt. Sú merking kemur til um miðja tuttugustu öld að því er virðist. Í Vísi 1953 segir: „Laxárnar freista margra veiðimanna, og margar fjölskyldur úr Reykjavík eiga sér nú orðið sumarlönd í Borgarfirði.“ Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Þórður telur að ásókn í land undir sumarbústaði í Reykhólasveit muni aukast enda sé þar mikið af fallegum sumarlöndum.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Í mörg sumur hafa þau hjónin komið í sumarlandið okkar með tjaldvagninn sinn og sett sig þar niður í litlu rjóðri.“
En elsta dæmi um orðið á tímarit.is er í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1861: „sumarland allgott fyrir málnytu, en fjall-land óhægt að nota.“ Þarna merkir orðið sem sé 'sumarbeitiland' og þá merkingu hefur það í mörgum af elstu dæmunum, t.d. í Þjóðólfi 1883: „Sumarland rýrt fyrir sauðfé en þénugra fyrir nautpening.“ Einnig er talað um dvalarstaði fugla sem sumarlönd, bæði innanlands og utan: „Myndir þessar eru úr rannsóknarleiðangri Finns Guðmundssonar og fuglafræðinganna brezku, sem dvöldust vikum saman í sumarlöndum heiðagæsarinnar undir Hofsjökli“ segir í Tímanum 1951, og í sama blaði 1961 segir: „Nú voru allar heilbrigðar kríur flognar úr landi – lagðar af stað í ferðina miklu til nýrra sumarlanda langt suður í heimi.“
Ég stóð í þeirri merkingu að nútímamerkingin, 'himnaríki' eða eitthvað slíkt, væri nýleg, og vissulega hefur notkun hennar margfaldast á síðustu árum – en hún er þó fjarri því að vera ný. Þessi merking virðist koma fyrir í kvæði eftir Matthías Jochumsson í Lögbergi 1898: „ávalt sjeð inn góði getur / guðs in dýru sumarlönd.“ Í kvæði sem sagt er frá 17. öld í Verði ljós! 1904 segir: „sýndu oss eilíf sumarlönd / þá sviftir af dauða stríðum.“ Í erfikvæði í Heimskringlu 1910 segir: „Það kent var okkur ungum, þá að bar dauða manns, / að englar bjartir kæmu og tækju sálu hans. / Þeir fluttu’ hana frá vetri á sólrík sumarlönd.“ En þarna er alltaf talað um sumarlönd í fleirtölu og án greinis, sem er frábrugðið þeirri notkun orðsins sem hefur tíðkast lengst af.
Sú notkun mun upphaflega vera komin úr ritum spíritista. Í grein eftir Arthur Conan Doyle í þýðingu Haraldar Níelssonar og Einars H. Kvaran í Ísafold 1916 segir: „Þau staðfesta, að til sé “Sumarland” eða himnaríki og halda því fram, að allir menn eigi að lokum að fá þar hvíld.“ Í grein eftir Einar H. Kvaran í Morgni, tímariti Sálarrannsóknafélags Íslands, segir 1933: „Þá er þriðja sviðið. Það hefur oft í ritum spíritista verið nefnt Sumarlandið.“ Í Morgni 1963 segir: „Hann segir, að fyrst eftir að menn hverfi héðan lifi þeir venjulega um lengri eða skemmri tíma á þeim sviðum sem Grikkir nefndu Hadesarheim,, guðspekingar mundu kalla geðheima, en hann kallar Blekkingaheiminn (the Plane of Illusion). Spíritistar kalla þetta stundum Sumarlandið.“
Þessi notkun orðsins sumarlandið er nokkuð algeng langt fram eftir 20. öld. Í Fuglinum í fjörunni eftir Halldór Laxness frá 1932 segir: „Nú bið ég um að mega kveðja þig einsog ástvin sem er að deya. Þú líður til sumarlandsins fagra.“ Í skáldsögu Halldórs Höll sumarlandsins, frá 1938, segir: „og þó við förum á mis við ýmislegt smávegis í þessum heimi, þá bíður hamíngjan okkar í sumarlandinu þángað sem ástvinir okkar eru farnir á undan okkur.“ Í Degi 1932 segir: „Varpa eg nú þeim kveðjuorðum að moldum þínum og minningu. Má og vera að hljóðnæmt eyra þitt nemi þau orð mín á sumarlandinu sólarmegin.“ Í minningargrein í Viðari 1939 segir: „Í hug mér sé ég hann í sóllýstu sumarlandi, þar sem loftið angar af ilmi unaðslegra blóma.“
En á þremur síðustu áratugum tuttugustu aldar var þessi notkun orðsins sárasjaldgæf að því er virðist – ekki nema eitt og eitt dæmi á stangli á tímarit.is þrátt fyrir að minningargreinum færi fjölgandi. Ef til vill tengist það dalandi gengi spíritismans en tímarit Sálarrannsóknafélagsins, Morgunn, gaf upp öndina 1998 og í síðasta tölublaðinu sem kom út segir: „Nú á síðari árum hafa stöku sinnum heyrst raddir um að spíritisminn sé á undanhaldi á Íslandi.“ Af einhverjum ástæðum fór þetta orðalag svo aftur á flug upp úr aldamótum eins og áður segir, væntanlega alveg óháð spíritismanum, og kemur nú fyrir í eftirmælum flestra sem skrifað er um. Það má segja að það hafi verið komið í sumarlandið en snúið aftur tvíeflt.