Strámaður

Hér var í dag spurt um merkingu orðsins strámaður. Það er bein þýðing enska sambandsins straw man sem merkir 'an argument, claim, or opponent that is invented in order to win or create an argument' eða 'röksemd, staðhæfing, eða andstæðingur sem er fundið upp í þeim tilgangi að vinna deilu eða búa til röksemd'. Þetta orð er sem sé notað þegar búinn er til ímyndaður andstæðingur í rökræðum og skoðanir hans síðan sallaðar niður, eða þegar raunverulegum andstæðingum eru gerðar upp skoðanir sem síðan eru hraktar. Oft er það þá gert á þann hátt að hinar tilbúnu skoðanir eru látnar líta út sem eðlilegt framhald af einhverju sem hefur verið haldið fram í rökræðum – þarna er verið að segja hálfsannleik eða beita blekkingum.

Orðið straw man merkir bókstaflega 'brúða eða fuglahræða úr hálmi‘ – straw merkir 'hálmur' eða 'hálmstrá'. Orðið strámaður er gefið í merkingunni 'Straamand' í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, að vísu með spurningarmerki, og dæmi eru um að orðið hafi verið notað í íslensku í þessari merkingu. Í Austra 1900 segir: „Englendingar læddust með mestu varkárni að herbúðunum og fundu þar – strámann(!) á verði fyrir framan tjöldin.“ Í Fálkanum 1951 segir: „Til þess að gera hjátrúarfullum gestum til geðs hefir gistihússtjóri einn í Chicago látið búa sér til „strámann“, sem hann getur gripið til, er svo stendur á að 13 gestir eiga að borða saman. Þetta er brúða í venjulegri mennskri stærð, og heitir Lúðvík XIV.“ En slík dæmi eru sárafá.

Yfirfærð merking sambandsins er þekkt síðan á 19. öld og líkingin er vitanlega augljós – fuglahræðunni er ætlað að blekkja fugla, láta þá halda að um mannveru sé að ræða, rétt eins og  strámaður í rökræðu er búinn til í blekkingarskyni. En blekkingin getur verið á fleiri sviðum en í rökræðum. Önnur skýring á straw man er 'someone, often an imaginary person, who is used to hide an illegal or secret activity' eða 'einhver, oft tilbúin mannvera, sem er notuð til að fela ólöglegar eða leynilegar athafnir'. Þetta er sem sé svipað því sem hefur verið kallað leppur í íslensku og er skýrt 'sá sem að nafninu til er talinn eigandi eða stjórnandi e-s' eða 'handbendi' í Íslenskri orðabók. Flest dæmi frá 20. öld um orðið strámaður í íslensku eru flest af þessu tagi.

Í Austra 1900 segir: „þá er okkur það þó auðsjen huggun að þjer gleymið ekki á meðan að það eru »strámennirnir« íslensku sem hreiðrað hafa um yður í fletinu þar sem þjer liggið nú.“ Í Lögbergi 1904 segir: „Sumir borgarstjórarnir hafa ekki verið annað en málamyndar-borgarstjórar (strámenn).“ Í Austra 1905 segir: „Þessi milliliður, sem í sjálfu sér er lántökunni og lánveitingunni óviðkomandi, er einskonar „strámaður“.“ Í Samvinnunni 1959 segir: „Maður getur losnað við alla ábyrgð og áhættu sjálfur, haft bara „strámenn“, skilurðu.“ Í Tímanum 1980 segir: „Norðmennirnir veiddu hér í landhelgi og fóru í kringum lögin með því að láta einstaka menn hafa hér vetursetu, eða með því að nota íslenska „leppa“ eða „strámenn“.“

En það er ekki fyrr en á þessari öld sem strámaður sést í merkingunni sem vísað er til í fyrstu efnisgrein, 'tilbúin röksemd eða andstæðingur'. Örfá dæmi eru á samfélagsmiðlum frá 2004 og 2005, en elsta dæmið á tímarit.is er í Fréttablaðinu 2006: „Þess í stað eru reist ímynduð vígi orðræðunnar þar sem stjórnmálamaður getur ótruflaður skotið billegum skotum á strámenn.“ Í Lesbók Morgunblaðsins sama ár segir: „Það er ódýrt að gera strámann úr femínískri heimspeki eða heimspeki mismunarins, eins og hún er oft kölluð nú á dögum, með því að skilja hana á þann hátt sem Eyjólfur gerir.“ Í Fréttablaðinu 2010 segir: „Andstæðingar Dawkins eru því gjarnir á að mála skrattann á vegginn; búa til strámann sem þeir síðan ráðast gegn.“

Dæmum um orðið hefur fjölgað mjög að undanförnu, einkum á síðustu tíu árum. Í Risamálheildinni eru rúm þúsund dæmi um strámaður, væntanlega langflest í merkingunni 'tilbúin röksemd eða andstæðingur'. Vitanlega má deila um hversu heppilegt þetta orð sé – mörgum er meinilla við allar slíkar yfirfærslur úr ensku jafnvel þótt orðhlutarnir séu íslenskir. En eins og hér hefur verið sýnt er orðið meira en hundrað ára gamalt í málinu þótt merkingin hafi lengstum verið svolítið önnur en nú. Spurningin er hvort við höfum eitthvert annað orð sem hægt sé að nota fyrir þessa merkingu – þótt náinn skyldleiki sé með merkingartilbrigðunum finnst mér ekki hægt að nota orðið leppur um hana. Þar sem strámaður er greinilega komið í töluverða notkun held ég að rétt sé að mæla með að við höldum okkur við það orð.