Að hafa ekki roð við eða eiga ekki roð í
Í gær var hér spurt um orðasambandið eiga ekki roð í sem fyrirspyrjandi sagðist hafa vanist í myndinni hafa ekki roð við. Það er alveg rétt að síðarnefnda gerðin er mun eldri – í elsta dæmi um sambandið í Ritmálssafni Árnastofnunar er reyndar notuð sögnin standa, eins og Jón G. Friðjónsson bendir á í Merg málsins. Það dæmi er úr þýðingu eftir séra Snorra Björnsson á Húsafelli frá seinni hluta 18. aldar: „En það stoðar ekki fljóð / enginn roð við honum stóð.“ En elsta dæmi um myndina hafa ekki roð við er í Smásögum Magnúsar Stephensen frá 1820: „þótt dável smakkaðist Pétri tárið jafnaðarlega, hafði hann ekki roð við.“ Sambandið verður þó ekki algengt fyrr en fer að líða á tuttugustu öld, einkum á síðasta þriðjungi hennar.
En um það leyti fara einnig að koma fram tilbrigði í orðasambandinu eins og fram kemur hjá Jóni G. Friðjónssyni í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2007: „Orðatiltækið hafa ekki roð við einhverjum 'vera hvergi nærri eins góður í einhverju og einhver; standa einhverjum langt að baki' vísar til hunda sem slást um (togast á um) fiskroð og annar hefur ekki við hinum. Vísunin hlýtur að vera gagnsæ í hugum flestra en hún fer fyrir ofan garð og neðan ef ekki er valin rétt forsetning […].“ Þarna er Jón að vísa til dæma þar sem forsetningin í er notuð í stað við. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1980: „Eastwood karlinn er einnig í essinu sínu sem hinn fámáli, ódrepandi karlpeningur sem enginn hefur roð í.“
Iðulega er það þó ekki bara forsetningin sem breytist, heldur einnig sögnin – eiga kemur í stað hafa. Elsta dæmi um það er í Tímanum 1983: „KR-ingar, sem nú nálgast óðum fyrstu deildina, áttu aldrei roð í Valsmenn.“ Nokkur næstu dæmi eru einnig úr Tímanum en fljótlega fylgja fleiri blöð á eftir. Í Þjóðviljanum 1984 segir: „enduðu svo yfirleitt með því að reyna að gefa háar sendingar á Jón Oddsson og Ingólf Ingólfsson, sem áttu ekki roð í hávaxna miðverði IBK.“ Í Helgarpóstinum 1984 segir: „Rush átti ekki roð í KR-vörnina.“ Í Morgunblaðinu 1987 segir: „Keppinautar Helgu áttu ekki roð í hana í þetta skipti.“ Í Fréttum 1988 segir: „Ég held að Eyjastrákarnir bíði lægri hlut úr viðureigninni, þeir eiga ekkert roð í þá japönsku.“
Það er auðvitað rétt sem Jón G. Friðjónsson segir að vísunin í orðasambandinu „fer fyrir ofan garð og neðan ef ekki er valin rétt forsetning“. Hins vegar held ég að það sé alls ekki rétt að vísunin sé „gagnsæ í hugum flestra“. Ég held að fæstir málnotendur hafi séð hunda togast á um fiskroð og sú vísun skipti engu máli fyrir skilning þeirra á orðasambandinu – enda hefði það varla breyst ef svo hefði verið. Enda er það einmitt eðlileg þróun fastra orðasambanda – þau eru gagnsæ í upphafi en fara smátt og smátt að lifa sjálfstæðu lífi og tengslin við upprunann dofna eða rofna algerlega. Fyrir nútíma málnotendum er hafa ekki roð við bara orðasamband með ákveðna merkingu sem þarf að læra, óháð vísun, og eins hægt að segja eiga ekki roð í.
En þótt rofin tengsl við uppruna leiði til þess að sambandið gat breyst skýra þau ekki að það skyldi breytast. Á því kann ég svo sem enga skýringu en hugsanlegt er að áhrif frá eiga séns í sem hefur sömu merkingu spili þar inn í. Hvað sem því líður er ljóst að orðasambandið hefur breyst – langalgengasta mynd þess í Risamálheildinni er sú þar sem bæði sögn og forsetning breytist, eiga ekki roð í. Um hana eru rúm sjö hundruð dæmi en dæmin um eldri myndina, hafa ekki roð við, rúmlega þrjú hundruð, og dæmin þar sem aðeins forsetningin breytist, hafa ekki roð í, rúmlega hundrað. Vegna aldurs og tíðni myndanna eiga/hafa ekki roð í er engin ástæða til annars en telja þær góðar og gildar við hlið eldri myndarinnar hafa ekki roð við.