Í áttina en ekki alla leið

Í viðtali í Morgunblaðinu um kynhlutlaust mál segir menningar- og viðskiptaráðherra: „Það er til að mynda, í núverandi mál­stefnu RÚV, ekki fjallað um kynhlutlausa málið“. Það er alveg rétt, enda væri það óeðlilegt ef þetta væri nefnt þar. Það er ekki fjallað um nein einstök málfarsleg atriði í málstefnunni – hún er almennur rammi. Í henni segir að Ríkisútvarpið hafi „fyrst og fremst málrækt að leiðarljósi í málstefnu sinni“ en „Undir málrækt fellur öll meðvituð og skipuleg viðleitni til að laga tungumál að nýjum aðstæðum með því að mynda ný orð af innlendum stofni eða laga erlend orð að beygingum og hljóðkerfi þess. Málrækt getur líka náð til annarra tilrauna til þess að gera málið hæfara til að þjóna hlutverki sínu í samfélaginu“.

Með breytingum á málbeitingu í átt til kynhlutleysis er einmitt verið að „laga tungumál að nýjum aðstæðum“ og „gera málið hæfara til að þjóna hlutverki sínu í samfélaginu“. Ráðherrann segir líka: „Þú get­ur notað það, kyn­hlut­laust mál, að ein­hverju leyti án þess að fara alla leið.“ Þetta er hárrétt og einmitt það sem málið snýst um – að hnika málbeitingu í átt til kynhlutleysis. Það er hægt að gera með ýmsu móti innan ramma hefðbundins máls án þess að gera einhverjar róttækar breytingar á málkerfinu. Ég veit ekki til að neinum detti í hug að það sé hægt að gera málið fullkomlega kynhlutlaust en það skiptir samt máli að stefna í þá átt – t.d. með því að tala um tónlistarfólk eins og ráðherra segist gera, frekar en tónlistarmenn. Norðfólk er strámaður.