Að leggja á tungu
Í hópnum Skemmtileg íslensk orð var nýlega spurt um merkingu sambandsins leggja (einhverjum eitthvað) á tungu. Ástæða fyrirspurnarinnar var setning í Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins eftir Pál Eggert Ólason, þar sem talin eru upp heiti á kvæðum í tilteknu handriti og það síðasta í upptalningunni er „Harmagrátr (lagðr á tungu Þorsteini Daníelssyni að Skipalóni)“. Ég man ekki eftir að hafa heyrt þetta orðasamband notað og ég hef ekki fundið það í neinum orðabókum, hvorki um fornmál né síðari alda mál. En þegar ég fór að skoða málið nánar fann ég töluvert af dæmum um sambandið í textum allt frá því um miðja nítjándu öld og fram undir lok tuttugustu aldar, en það virðist vera nær horfið úr nútímamáli.
Elsta dæmi sem ég hef fundið er í Norðra 1859: „Þekkti jeg suma þeirra að viturleik og drengskap og þótti undarlegt að þeim gæti verið lagið annað í huga en hitt á tungu.“ Annað dæmi er úr kvæði eftir Gísla Eyjúlfsson í Íslendingi 1861: „svo að engin kjör / leggi’ oss æðru-orð á tungu.“ Í Dagsbrún 1895 segir: „þarna stendur Davíð innblásinn af guðs anda, talandi þau orð, sem guð sjálfur leggur á tungu hans.“ Í Sameiningunni 1898 segir: „Að Elízabet frændkona hennar hafði heilsað henni sem móður drottins síns hafði ekki verið hennar sök; drottinn sjálfr hafði lagt þau orð á tungu hennar.“ Í Heimskringlu 1900 segir: „ég vil biðja einhvern góðan anda að leggja mér verðug orð á tungu og samboðin þessu hátíðlega tækifæri.“
Í kvæði eftir Bjarna frá Vogi í Þjóðólfi 1902 segir: „Ást á frelsi / og fjón á helsi / lögðu ungum / þér orð á tungu.“ Í Ingólfi 1906 er „Frú Íslenzka“ ávörpuð og sagt: „Þú ert víðfræg og hefir lagt Snorra Sturlusyni, Jónasi Hallgrímssyni og öðrum snillingum ódauðleg orð á tungu.“ Í „Minni Steingríms Thorsteinssonar“ eftir Þorstein Erlingsson í Austra 1911 segir: „Og vel gjörðu, Steingrímur, vordúfur þær, sem […] lögðu þér „Vorhvöt“ á tungu.“ Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Skyldi það vera sálarþróttur feðranna frá söguöldinni, sem nú leggur niðjunum […] skáldskap þann og orðsnild á tungu?“ Í Lögbergi 1914 segir: „því þar sem rita má eða ræða af óblandinni sannfæringu, leggur sannleikurinn manni ávalt orð á tungu.“
Mjög oft er sambandið notað í skáldskap eða um skáldskap eins og dæmin hér að framan sýna, en fleira er þó til – „En veiztu, hver það er eða hverjir, sem leggja þér orð á tungu?“ er miðill spurður í Lesbók Morgunblaðsins 1970. Þegar kemur fram á seinni hluta tuttugustu aldar fer dæmum um sambandið fækkandi og eru nær horfin á þessari öld eins og áður segir – aðeins rúm tíu dæmi í Risamálheildinni og flest úr eldri textum. Nýjasta dæmið er úr Fræðaskjóðu eftir Bergljótu S. Kristjánsdóttur frá 2020: „Þannig má segja að Gerður Kristný búi til sína mynd af persónunni Gerði Gymisdóttur í Blóðhófni og leggi henni orð á tungu.“ Mér finnst þetta fallegt og skemmtilegt orðasamband sem gjarna mætti vekja aftur til lífsins.
Merking sambandsins er ekki alltaf nákvæmlega sú sama og verður að ráða hana að einhverju leyti af samhengi. Oftast er hún þó eitthvað í átt við 'leggja einhverjum orð í munn', 'veita einhverjum innblástur' eða eitthvað slíkt. Merkingin er oftast jákvæð en þó ekki alltaf – „í brjósti mannsins hló illi andinn, er lagði honum orð á tungu, og æsti geð hans til haturs og ofsókna“ segir í Ljósi og skuggum 1904. Í dæminu sem vísað var til í upphafi, „lagðr á tungu Þorsteini Daníelssyni að Skipalóni“ er merkingin sennilega 'ort í orðastað Þorsteins'. Það var altítt áður fyrr að skáld væru fengin til að yrkja erfiljóð í nafni verkbeiðandans – Þorsteinn á Skipalóni var stórbóndi sem hafði örugglega efni á því að fá skáld til slíks verks.