Að liggja á tungu

Í gær skrifaði ég hér um orðasambandið leggja (einhverjum eitthvað) á tungu. Í framhaldi af því fór ég að skoða annað samband, mjög skylt – liggja (einhverjum) á tungu, sem er ekki heldur í orðabókum. Saga og þróun þessara sambanda er svipuð þótt elsta dæmi sem ég finni um það síðarnefnda sé rúmlega hálfri öld yngra en hitt, í kvæði eftir Sigurð Jónsson frá Arnarvatni í Sunnanfara 1902: „Mér lágu ungum svo oft á tungu / þau orð, sem féllu í stuðla’ og söng.“ Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Og það er áreiðanlegt að honum lágu stór orð á tungu, en samt sem áður var hann fyrirmyndar stýrimaður, eins og öll framkoma hans ber vott um.“ Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Cottet gleypti þau blótsyrði, sem lágu honum á tungu.“

Í Nýjum kvöldvökum 1940 segir: „að hann loksins bar fram spurningu, sem lengi hafði legið honum á tungu.“ Í Skírni 1941 segir: „Honum lágu örvar á tungu, sem hittu í markið, þegar honum rann í skap.“ Í Tímanum 1950 segir: „Æðruorð lá ekki á tungu hans.“ Í Tímaritið Þjóðræknisfélags Íslendinga 1951 segir: „Oss grunar það jafnvel að orð eins og föðurlandsást hafi æði sjaldan legið þeim mönnum á tungu.“ Í Tímanum 1960 segir: „Þegar fjármálaráðh. mælti fyrir fjárlagafrv. í október sl., lá honum sparnaður mjög á tungu sem fyrr.“ Í Vikunni 1960 segir: „Mick þagnaði við, og lét ósögð þau orð, sem bersýnilega lágu honum á tungu.“ Í Morgunblaðinu 1980 segir: „því að svörin við öllu liggja honum tamt á tungu.“

Mjög oft fylgir atviksorðið létt með sambandinu. Elsta dæmi um það er í Suðurlandi 1914: „Fáum íslenskum skáldum hefir legið ljóðið svo létt á tungu sem Þorsteini.“ Í Dagblaði 1925 segir: „Eru það blótsyrðin, sem mest ber á og virðast þau liggja flestum létt á tungu.“ Í Tímanum 1930 segir: „Öllum liggur þeim skáldamálið með allri fjölbreytni sinni létt á tungu.“ Í Heimskringlu 1940 segir: „Páll byrjaði ungur að yrkja […] og liggur auðsjáanlega stuðlað mál mjög létt á tungu.“ Í Morgunblaðinu 1958 segir: „En þótt meir en vafasamt sé, að þeim hafi legið orðið lífsbarátta jafn létt á tungu og yngstu kynslóð okkar, þá er hitt jafnvíst: Þau unnu hana.“ Í Tímanum 1959 segir: „Höfundi liggja náttúrulýsingar mjög létt á tungu.“

Merking sambandsins liggja (einhverjum) á tungu er ekki alltaf nákvæmlega sú sama en er oftast auðráðin af samhengi. Það merkir 'vera hugleikið', 'verða tíðrætt um', 'vera að því kominn að segja', 'eiga auðvelt með að tala/yrkja' eða eitthvað slíkt. Sambandið var töluvert notað langt fram eftir síðustu öld en dæmum um það hefur farið fækkandi undanfarið. Í Risamálheildinni eru um fimmtíu dæmi frá þessari öld, langflest um liggja létt á tungu, ekki síst í minningargreinum – „Hann var einstakt ljúfmenni og græskulaus gamanyrði lágu honum létt á tungu“ segir í Morgunblaðinu 2001, „Danskan lá henni létt á tungu“ segir í Morgunblaðinu 2018. Eins og leggja á tungu er þetta samband sem gjarna mætti blása lífi í.