Hvað merkir friðsamleg mótmæli?

Í frétt Ríkisútvarpsins af mótmælum vegna ástandsins á Gaza fyrir utan ríkisstjórnarfund í gær sagði: „Lögregla beitti piparúða á mótmælendur sem lagst höfðu í götuna til að hindra umferð í kringum ríkisstjórnarfund í Skuggasundi á bak við Þjóðleikhúsið í dag.“ Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni sagði einnig í viðtali við Ríkisútvarpið: „fólk hlýddi engum fyrirmælum“ og piparúða var því beitt „til þess að geta rýmt götuna“. Í viðtali um aðgerðir lögreglunnar á vef Ríkisútvarpsins í dag segir dómsmálaráðherra: „Ísland er lýðræðisríki og í lýðræðisríkjum virðum við rétt fólks til að tjá skoðanir sínar með friðsælum hætti. En um leið og farið er gegn skýrum fyrirmælum lögreglu þá eru mótmæli ekki lengur friðsamleg.“

Hvorki réttmæti mótmælaaðgerða né aðgerðir lögreglu eru viðfangsefni þessa hóps. Hins vegar er mikilvægt að hafa augun opin fyrir því þegar stjórnvöld misbeita tungumálinu og snúa merkingu orða á hvolf. Lýsingarorðið friðsamlegur merkir 'sem einkennist af friði' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók eða 'sem fer fram í friði, hefur frið að forsendu' samkvæmt Íslenskri orðabók. Ekkert bendir til þess að mótmælendur hafi beitt valdi, hvað þá ofbeldi, eða ógnað einhverjum. Engin hætta skapaðist af aðgerðum þeirra og þær trufluðu ekki einu sinni ríkisstjórnarfund. Enda reynir ráðherrann ekki að halda því fram, heldur réttlætir aðgerðirnar með því að mótmæli sem fari gegn fyrirmælum lögreglu séu „ekki lengur friðsamleg“.

Ég veit ekki hvort fólk áttar sig almennt á því hvað þessi orðskýring ráðherrans er hættuleg. Með þessu móti væri hægt að stöðva öll mótmæli, hvers eðlis sem þau væru, með geðþóttaákvörðun lögreglu. Að neita að hlýða fyrirmælum lögreglu felur vissulega í sér borgaralega óhlýðni, en það er skilgreiningaratriði á borgaralegri óhlýðni að hún er friðsamleg. Ef stjórnvöld komast upp með það að misþyrma merkingu orða á þennan hátt erum við komin út á mjög hættulega braut. Þess vegna er það skylda okkar við samfélagið, og við tungumálið, að vekja athygli á því þegar orð sem við vitum öll hvað þýða eru gerð merkingarlaus á þennan hátt. Það ber að fordæma harðlega.