Illa ánægður

Nýlega var hér til umræðu fyrirsögnin „Illa ánægður að ná þessu afreki fyrir þetta félag“ á vef Ríkisútvarpsins. Af samhenginu er ljóst að merkingin er 'mjög ánægður' þrátt fyrir að atviksorðið illa sé vitanlega neikvætt. Í fljótu bragði gæti því virst sem merkingu illa væri þarna snúið á haus, en eðlilegra er þó að líta svo á að illa hafi þarna misst grunnmerkingu sína og sé einfaldlega notað sem áhersluorð, svipað og gerst hefur með ógeðslega og fleiri atviksorð. Málshefjandi sagðist fyrst hafa heyrt þessa notkun orðsins á Húsavík fyrir rúmum fjörutíu árum – þar hefði fólk t.d. talað um illa gott veður í brakandi blíðu. Í frétt Ríkisútvarpsins er þetta einmitt haft eftir manni frá Húsavík og ég hef oft heyrt þessa málnotkun tengda við bæinn.

Umræðan leiddi samt í ljós að þetta er notað víðar, a.m.k. um austanvert Norðurland – á Ólafsfirði, Dalvík, Akureyri og víðar þótt engin ástæða sé til að efast um að kjarnasvæðið sé Húsavík. Einn þátttakenda í umræðunni sagðist hafa heyrt það fyrst á Ólafsfirði fyrir 60 árum og annar sagði að þetta hefði verið mjög algengt á Húsavík á sjötta og sjöunda áratugnum. Þau örfáu dæmi sem finna má úr öðru en samfélagsmiðlum samræmast þessu. „Illa flott!“ segir í bók frá 1987 eftir höfund frá Ólafsfirði. „Hann var alveg illa flottur“ segir handboltamaður frá Akureyri í Vísi 2014. „Hafði illa gaman að þessu“ er haft eftir manni frá Húsavík í Fréttablaðinu 2019. Fótboltamaður frá Akureyri segir „það var illa gott moment“ á fótbolti.net 2020.

En þetta er óformlegt orðalag sem einkum er bundið talmáli og því erfitt að grafast fyrir um aldur þess og uppruna – það kemst mjög sjaldan á prent. Einn þáttakenda í umræðunni, kona á Akureyri, sagði að þetta væri algengt í talmáli í sínu málumhverfi, aðallega þó hjá ungu fólki. Samfélagsmiðlahluti Risamálheildarinnar staðfestir þetta – þar er fjöldi dæma um þessa notkun illa. Á Hugi.is 2001 segir: „Mér finnst Kátur illa flott nafn.“ Á Málefnin.com 2004 segir: „Svo var illa gaman að heyra Bubba pínu falskan.“ Á Hugi.is 2004 segir: „illa gott að fá sér einn vindil á fylleríi.“ Á Hugi.is 2008 segir: „Ég er illa ánægður með þær.“ Á Twitter 2011 segir: „Hann var nú illa flottur í byrjun móts.“ Á Twitter 2013 segir: „Illa gott kaffi.“

Það er ómögulegt að átta sig á því hversu mörg dæmi eru í Risamálheildinni um þessa notkun illa en þau skipta örugglega hundruðum. Þá á ég eingöngu við dæmi með jákvæðum lýsingarorðum – þegar um neikvæð lýsingarorð er að ræða er oft útilokað að segja hvort illa er notað í grunnmerkingu sinni eða í áherslumerkingu. Þetta eru dæmi eins og „Hann varð oft illa reiður og Bakkus var þá enginn vinur hans“ í Morgunblaðinu 2014 og „Varð alltaf illa fullur og leiðinlegur en notaði þess vegna hass“ í Morgunblaðinu 2020. Það er ekki heldur hægt að átta sig á uppruna höfunda dæmanna en mér finnst ákaflega ólíklegt að þau séu öll frá Norðlendingum. Sennilega tíðkast þessi notkun í óformlegu máli um allt land.

Eins og áður segir er ljóst að þessi málnotkun er a.m.k. sextíu ára gömul en gæti verið mun eldri. Í Safni af íslenzkum orðskviðum eftir Guðmund Jónsson frá 1830 er að finna málsháttinn „Þar fór illa góðr biti í hundskjapt“ og í Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen segir „þar færi illa góður biti í hundskjaft“. Þarna gæti illa haft áherslumerkingu þótt önnur túlkun sé möguleg. En hins vegar er rétt að nefna að stundum hefur illa með lýsingarorði beinlínis neitandi merkinu, 'ekki'. Í Skírni 1838 segir t.d.: „yfir höfuð að tala eru menn illa ánægðir með stjórnina, og geingur þar ekki á öðru enn sífeldum óróa, upphlaupum, ránum og brennum.“ Þarna er augljóst að illa ánægðir merkir 'óánægðir' og sú merking sambandsins tíðkaðist eitthvað fram á 20. öld.