Þetta Danmerkurdæmi

Nafnorðið dæmi fær þrjár skýringar í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'þraut í stærðfræði, reikningsþraut, reikningsdæmi', 'sýnishorn af e-u (óáþreifanlegu)' (framkoma borgarstjórans er dæmi um hroka yfirvalda) og 'það að e-ð á sér stað, atburður, tilfelli' (þess eru mörg dæmi að menn kaupi hús í útlöndum). Engin þessara skýringa nær þó yfir algengustu notkun orðsins í samsetningum í óformlegu máli, þar sem ábendingarfornafnið þetta fer á undan – samböndum eins og þetta magadæmi, þetta platbarnadæmi, þetta grasadæmi, þetta koppadæmi, þetta vöðvabólgudæmi, þetta lyfjadæmi, þetta skilaboðadæmi, þetta föndurdæmi, þetta eggjadæmi, þetta fjórhjóladæmi, þetta breiðbandsdæmi, sem öll eru af Bland.is á árunum 2002 og 2003.

Dæmin um þetta í Risamálheildinni eru á annan tug þúsunda, langflest af samfélagsmiðlum – þ.e. úr óformlegu máli. Þótt mörg þeirra séu skrifuð í tvennu lagi eða með bandstriki milli orðhluta, einkum ef fyrri hlutinn er erlendur, er eðlilegast sé að líta á þau öll sem samsetningar. Engin þessara orða er að finna í orðabókum, enda eru þetta einnota augnabliksmyndanir – orð sem verða til á tilteknum stað og stundu vegna þess að þörf er fyrir þau, en er ekki ætlað framhaldslíf. Þess vegna er merking þeirra mjög fljótandi – í þeim merkir -dæmi oftast eitthvað í átt við 'viðfangsefni, vandamál, vesen, mál, atburður, áætlun, hugmynd' o.fl. en nákvæmur skilningur byggist algerlega á samhengi og/eða þekkingu þeirra sem orðunum er beint til.

Í Morgunblaðinu 2006 segir: „Við erum náttúrulega búnir að plana þetta Danmerkurdæmi í kannski tvö ár.“ Í fréttinni kemur fram að málið snýst um útrás íslensks tónlistarfólks en í öðru samhengi gæti þetta Danmerkurdæmi vísað til fjölmargs annars – viðskipta við Danmörku, flutnings til Danmerkur, heimsóknar til Danmerkur, o.s.frv. Sama má segja um öll samböndin sem nefnd eru hér að framan – þið getið skemmt ykkur við að hugsa upp samhengi þar sem þau gætu átt við. Auðvitað er þetta misaugljóst – sumt er aðeins skiljanlegt innan þröngs hóps en ef við sæjum talað um þetta Grindavíkurdæmi væri augljóslega vísað einhvers sem tengdist eldsumbrotum í grennd við Grindavík þótt samhengið yrði alltaf að segja til um nákvæma vísun.

Það er erfitt að segja hversu gömul þessi notkun er í málinu. Mér finnst ekki mörg ár síðan ég fór að taka eftir henni en hún er orðin algeng í elstu textum á samfélagsmiðlum, frá 2002, þannig að hún er a.m.k. aldarfjórðungs gömul. Ég held að ástæðan fyrir þessari notkun sé svipuð og fyrir notkun sambanda eins og eða þannig og eða þar sem ég hef áður skrifað um –  þau eru notuð ýmist sem regnhlíf yfir ýmislegt tengt sem ekkert eitt nákvæmara orð nær yfir, eða til að sleppa við nákvæma útlistun vegna þess að hún er óþörf eða við treystum okkur ekki í hana. Tíðni þessarar orðmyndunar sýnir að hún þjónar ákveðinni þörf og ég sé ekkert að því að nota hana í óformlegu máli, og geri það sjálfur, en eftir er að sjá hvort hún kemst inn í formlegt mál.