Baldur og faraldur
Aðalending sterkra karlkynsorða, bæði nafnorða og lýsingarorða, í nefnifalli eintölu er -ur – hest-ur, góð-ur o.sfrv. En í sumum nafnorðum og lýsingarorðum er -ur ekki beygingarending, heldur hluti stofns og r-ið á því að haldast í öllum beygingarmyndum – u-ið fellur aftur á móti brott ef beygingarending hefst á sérhljóði. Þannig fáum við akur – akur – akr-i – akur-s, Baldur – Baldur – Baldr-i – Baldur-s, fagur – fagr-an – fögr-um – fagur-s. Það fer eftir uppruna orðanna hvort -(u)r er hluti stofnsins eða beygingarending og um það gildir engin sérstök regla – oft haga orð sem eru með sambærilegt hljóðafar sér á mismunandi hátt að þessu leyti. Við segjum t.d. fald-ur um fald en galdur um galdur, og hag-ur um hag-an en fagur um fagr-an.
Þetta er sem sé eitt af því sem við þurfum að læra fyrir hvert orð um sig og vegna þess að það er margfalt algengara að -ur sé beygingarending en hluti stofns er ekkert undarlegt að málnotendur meðhöndli það stundum sem endingu þar sem það er í raun hluti stofns – felli það brott í þolfalli ef um nafnorð er að ræða eða setji -an þess í stað ef um lýsingarorð er að ræða. Þetta er ekki nýtt, a.m.k. ekki hvað varðar Baldur – í Reykvíkingi 1902 segir: „hús Balds Benediktssonar trjesmiðs.“ Í móðurmálsþætti í Framsóknarblaðinu 1954 segir: „Röng beyging á þessu orði er mjög algeng í málinu.“ Í móðurmálsþætti í Vísi 1956 segir: „Þá hefi eg heyrt eignarfallið af Baldur haft til Balds, sem er auðvitað rangt.“
Eitt þeirra orða þar sem -ur er stofnlægt er faraldur – öfugt við mannsnafnið Haraldur þar sem -ur er nefnifallsending. Eignarfall orðsins er faraldurs og því mætti búast við samsetningum eins og faraldursfræði enda segir Jón Aðalsteinn Jónsson í Morgunblaðinu 2001: „Læknar munu tala um faraldursfræði, ekki faraldsfræði.“ En það er reyndar ekki rétt – faraldsfræði er eina myndin sem gefin er upp í Íðorðasafni lækna í Íðorðabankanum þótt faraldursfræði sé gefið í öðru orðasafni í bankanum, og í Málfarsbankanum segir: „Talað er um faraldsfræði og faraldsfræðing.“ Þar að auki er faraldsfræði margfalt algengara en faraldursfræði á tímarit.is – þar eru 1800 dæmi um fyrrnefnda orðið en rúm 120 um það síðarnefnda.
Í Læknablaðinu 2005 hafði Jóhann Heiðar Jóhannsson formaður orðanefndar Læknafélagsins það eftir Ólafi Ólafssyni fyrrverandi landlækni að „heitið faraldsfræði hefði orðið til í starfshópi sem vann að undirbúningi á hóprannsókn Hjartaverndar árin 1967-1968. Naut hann meðal annars aðstoðar Vilmundar Jónssonar, fyrrum landlæknis“. En eins og fram kemur í grein Jóhanns Heiðars er ekki bara til karlkynsmyndin faraldur þótt hún sé einhöfð í nútímamáli, heldur einnig hvorugkynsmyndirnar faraldur og farald. Allar þessar myndir koma fyrir í fornu máli, en farald er þó algengust. Eignarfall þeirrar myndar er faralds og það er því hægt að líta svo á að sú mynd sé notuð í samsetningunni faraldsfræði sem þar með er fullkomlega eðlileg.