Hladdu símann!

Í dag var hér spurt hver væri boðháttur sagnarinnar hlaða. Eins og fram kemur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er venjulega myndin, með viðskeyttu annarrar persónu fornafni, hladdu – en hlað þú ef fornafnið er ekki haft viðskeytt. Þessi boðháttur var sjaldgæfur til skamms tíma – innan við tuttugu dæmi fram til síðustu aldamóta á tímarit.is. En með tilkomu fartölva, farsíma, rafskútna og ýmissa annarra rafhlöðudrifinna tækja sem þarf að hlaða hefur þörf fyrir að nota hlaða í boðhætti stóraukist á síðustu áratugum, auk þess sem sögnin er notuð í samböndum eins og hlaða upp og hlaða niður. Tíðni boðháttarins hefur því aukist, en minna en við væri að búast – ekki eru nema tæp 40 dæmi um hladdu í Risamálheildinni.

Það kom líka fram í umræðum að mörgum virðist enn finnast boðhátturinn hladdu framandi eða hljóma óeðlilega – hann væri „mjög óþjáll og ekki notaður í daglegu tali“ –  og vildu reyna að finna leið fram hjá honum, t.d. með umorðun. Þetta er vel þekkt – í Degi-Tímanum 1997 segir: „Hladdu! Furðulegur boðháttur.“ Á Twitter 2016 segir: „Síminn minn sagði "hladdu batteríið". Mér fannst það eitthvað óþægilegt.“ Á Twitter 2017 segir: „Er hladdu orðskrípi eða rétt?“ Fjöldi hliðstæðra boðháttarmynda er þó til – boðháttur af vaða er vaddu, af ráða ráddu, af ákveða ákveddu, af breiða breiddu, af biðja biddu, af bíða bíddu, af sjóða sjóddu, af ræða ræddu, o.fl. Flestar þessara mynda eru algengar og hljóma eðlilega í eyrum málnotenda.

Boðháttur er myndaður af stofni sagna sem kemur fram í nafnhætti, og allir þessir boðhættir eru reglulega myndaðir þótt það sé kannski ekki augljóst. Stofn allra sagnanna endar á , og við hann bætist fornafnið þú sem verður -ðu í áhersluleysi – hlað-ðu. En langt eða tvöfalt ð er ekki til í íslensku – þar sem tvö ð koma ættu að koma saman kemur alltaf fram langt eða tvöfalt dd í staðinn. Það er ekki bundið við boðháttinn – þetta gerist líka í þátíð margra sagna eins og breið-ði > breiddi, ræð-ði > ræddi, í mörgum lýsingarorðum (sem eru upphaflega lýsingarháttur þátíðar af sögn) eins og klæð-ður > klæddur, sað-ður > saddur (sbr. seðja), í nafnorðum eins og breið-ð > breidd, víð-ð > vídd, og í gælunöfnum eins og Gudda.

Vegna þess að þessi boðháttarmyndun er regluleg og hljóðbreytingin ðð > dd á sér fjölmörg fordæmi mætti búast við að boðhátturinn hladdu hljómaði eðlilega í eyrum málnotenda, en því virðist vera misbrestur eins og áður segir. Ástæðan er sennilega sú að myndir með -ddu eru óneitanlega talsvert ólíkar nafnháttarmyndum með -ða. Slíkur munur truflar okkur ekki í þeim orðum sem við erum vön og alin upp við, svo sem bíddu, ræddu o.s.frv., en eins og áður segir var boðháttur af hlaða sjaldgæfur til skamms tíma og þrátt fyrir að víxl ð og dd séu algeng í málinu virðast málnotendur ekki tengja þetta auðveldlega. En vegna aukinnar tíðni hlaða má búast við að dæmum um boðháttinn fari fjölgandi og við venjumst smátt og smátt við hladdu.